Set

Þegar berggrunnur rofnar og brotnar upp vegna áhrifa rofafla, til dæmis sjávarbrims eða árrofs, verða til bergbrot af mismunandi stærðum. Þannig breytist fast berg í set. Stærð setkorna, eða kornastærð, er flokkuð í fjóra aðalflokka: möl, sandur, silt og leir. Kornastærð og lögun korna geta gefið upplýsingar um flutning og straumhraða  vegna þess að  burðargeta rofafla er mismunandi.

Í upphafi eru brotin köntuð en með áframhaldandi veðrun, rofi og flutningi verður yfirborð þeirra rúnnað. Þegar dregur úr flutningi setjast kornin til og mynda setlög. Þau geta með tímanum þjappast saman, harðnað og orðið að setbergi.

Setlögum má skipta í þrjá flokka eftir myndun þeirra:

  • Molaberg er algengast og gert úr bergmylsnu. Það er flokkað eftir kornastærð, roföflum við flutning (til dæmis sjávarrof og árrof ) eða umhverfi setmyndunar (til dæmis sjávarset og árset). Eldfjallagjóska er flokkuð sem set.
  • Efnaset er ekki algengt hér á landi. Mýrarrauði er efnaset sem myndast í mýrum vegna mikils járns í vatni. Einnig flokkast hveraútfellingar og ummyndanir á jarðhitasvæðum með efnaseti, svo sem hverahrúður, hveraleir, brennisteinn og gifs.
  • Lífrænt set eru leifar plantna og dýra sem safnast saman í þykk lög. Dæmi um það eru olía, kol, surtarbrandur og kísilgúr.

Jarðvegur er molaberg sem er blandað lífrænum efnum. Íslenskur jarðvegur er ríkur af eldfjallagjósku og kallast eldfjallajörð (Andosol) og finnst hann aðeins á eldvirkum svæðum jarðar.