Ofanflóð

Ofanflóð eru massi jarðefna sem hrinur, fellur, rúllar, eða skríður vegna áhrifa þyngdaraflsins niður fjallshlíðar eða brekkur. Ofanflóðum er skipt í tvo yfirflokka, snjóflóð og skriðuföll.

Síðan byggð hófst hér á landi á níundu öld hafa ofanflóð valdið miklu manntjóni, mörgum slysum og stórfelldu fjárhagslegu tjóni. Fyrstu heimildir um tjón af völdum skriðufalla eru frá 10. öld en þar er getið skemmda á jörðum og byggingum auk manntjóns. Sumar frásagnir lýsa greinilega skriðuföllum eins og við þekkjum í dag en aðrar gætu átt við snjóflóð. Fyrstu öruggu heimildirnar um mannskæð snjóflóð eru frá árinu 1118 þegar snjóflóð í Dölum hreif með sér fimm menn sem allir fórust.

Á 20. öld fórust samtals 208 af völdum ofanflóða, þar af 166 vegna snjóflóða. Skriðuföll bönuðu 42, þar af fórust 18 í skriðum en 24 vegna grjóthruns. Á sama tíma slösuðust að minnsta kosti 59 í skriðuföllum (4 í skriðum og 55 í grjóthruni).

Hörmuleg snjóflóð í Súðavík og á Flateyri árið 1995, sem kostuðu 34 mannslíf og ollu miklu fjárhagslegu tjóni, gerbreyttu afstöðu Íslendinga til ofanflóðahættu. Þau opnuðu augu manna fyrir því að á nokkrum þéttbýlisstöðum á landinu er snjóflóðahætta, ásamt skriðu- og grjóthrunshættu, langt umfram það sem hægt er að sætta sig við.  

Mikilvægur grundvöllur aðgerða til að draga úr hættu af völdum ofanflóða er svokallað hættumat þar sem lagt er mat á snjóflóðaaðstæður og Veðurstofa Íslands hefur umsjón með, ásamt öllum nauðsynlegum rannsóknum. Síðan 1995 hefur hættumatsrannsóknum vegna ofanflóða fyrst og fremst verið beint að nokkrum þéttbýlisstöðum þar sem snjóflóða- og skriðuhætta er mikil. Á grundvelli hættumats hefur svo verið ráðist í ýmsar fyrirbyggjandi aðgerðir eins og gerð rýmingaráætlana, uppsetningu varnarvirkja og byggingu snjóflóðavarnargarða, auk uppkaupa á húsnæði og breytinga á skipulagi.

Nýlega er hafin vinna við könnun á ofanflóðaaðstæðum í dreifbýli. Þar beinast rannsóknir að snjóflóða- og skriðuhættu við lögbýli og íbúðarhús í sveitum landsins, auk frístundahúsa. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur tekið þátt fjölmörgum hættumatsrannsóknum í samstarfi við Veðurstofu Íslands og kannað skriðuhættu eða skriðusögu viðkomandi svæða.