Ár

Á Íslandi eru ár og lækir ólíkar að gerð og uppruna. Um þrenns konar vatnsföll er að ræða, afrennsli frá þéttum berggrunni, grunnvatn úr lausum eða gropnum jarðlögum og leysingarvatn ættað úr snjóalögum eða frá jöklum.

Landsvæði sem vatn rennur af í átt til vatnsfalls er nefnt „vatnasvið“ og mörk milli vatnasviða nefnast „vatnaskil“. Stærstu vatnasvið landsins eru vatnasvið Jökulsár á Fjöllum (7.750 km2) og Þjórsár (7.530 km2). Þjórsá er lengsta á landsins, 230 km löng, en Jökulsá á Fjöllum er 206 km. Þótt náttúrulegt vatnasvið Jökulsár á Fjöllum sé mun stærra en Þjórsár er meðalrennsli hennar mun minna. Við náttúrulegar aðstæður er meðalrennsli mest við ósa Þjórsár (383 m3/sek), Ölfusár (440 m3/sek) og Jökulsár á Fjöllum (212 m3/sek). Þessi munur endurspeglar skýrt hve mikill munur er á úrkomu norðan- og sunnanlands, það er norðan og sunnan jökla.

Íslensk vatnsföll greinast eftir uppruna og eðli í þrjá flokka:

  • Dragár finnast á þeim svæðum þar sem berggrunnur er frekar þéttur og ummyndaður eða á blágrýtissvæðunum vestan-, norðan- og austanlands. Þær eiga sér oftast engin greinileg upptök. Þær verða til úr sytrum í dældum og daladrögum og stækka smám saman þegar neðar dregur í farveginum. Rennsli dragáa er mjög háð veðurfari og flóð eru algeng. Í rigningum vaxa þær ört en í þurrkum og frostum þverra þær. Hitastig vatnsins í dragám fylgir mjög lofthita. Þær eru hlýjar að sumri en kaldar á vetrum. Í frostum kemur fljótt krapi í þær svo þær bólgna oft áður en þær leggur. Í frostum verða þær því vatnslitlar eða þverra jafnvel alveg. Í hlákum vaxa þær ört, sprengja af sér ísinn og ryðja sig. Myndast þá oft í þeim hrannir eða ísstíflur svo að þær flæða yfir bakkana. Í vatnavöxtum verða dragárnar stundum kolmórauðar af framburði.
  • Lindár eiga sér upptök í lindum á hrauna-, móbergs- og grágrýtissvæðum landsins. Þær eiga sér glögg upptök, oft í vatnsmiklum uppsprettum og ná stundum nær fullri stærð skammt frá upptökum. Vatnsrennsli þeirra er jafnt árið um kring og sama máli gegnir um hitastigið. Þær eru því lítt næmar fyrir hita- og úrkomubreytingum. Flóð eru sjaldgæf og verða helst í hlákum að vetri eða vori þegar klaki er í jörð svo úrkomu- og leysingarvatn nær ekki að síga niður. Lindár leggur aldrei í upptökum en neðar í farveginum getur þær lagt í miklum frostum.
  • Jökulár koma undan jöklum og verða til þegar jökulís bráðnar. Vatnsmagn jökuláa er mjög háð lofthita og eru þær því margfalt vatnsmeiri að sumri en vetri. Mestar verða þær í sumarrigningum en þá bætist rigningarvatnið við leysingarvatnið. Þær vaxa mjög í hlýindum og sólbráð og þá er reglubundin dægursveifla í rennsli þeirra. Við jökuljaðarinn eru þær mestar milli hádegis og nóns en minnstar að morgni við sólarupprás. Við jökuljarðarinn er hitastig vatnsins um 0°C en lengra niður með farveginum getur það orðið 15–20°C á sólríkum og kyrrum sumardegi. Í frosti myndast fljótt íshrannir í þeim svo að þær leggur venjulega í fyrstu frostum. Jökulár eru skolgráar af framburði, sem samanstendur af bergmylsnu, aur og leir sem jöklarnir hafa sorfið úr undirlagi sínu. Í frostum geta þær þó orðið nær blátærar.  

Flest stærri vatnsföll á Íslandi eru blanda af fleiri en einni tegund vatnsfalla. Í Jökulá á Fjöllum er til dæmis heilmikið lindavatn sem er afrennsli undan Ódáðahrauni og öðrum hraunasvæðum á vatnasviðinu. Sama gildir um Eyjafjarðará sem er dragá. Í henni er mikið lindavatn sem er afrennsli úr ungum berggrunni miðhálendisins við sunnanverðan Eyjafjörð og Eyjafjarðardal. Hörgá sem er dragá innheldur einnig hvoru tveggja lindavatn og jökulvatn sem kemur frá fjölda smájökla í fjöllum Tröllaskaga.