Jarðhiti

Jarðhita er að finna á yfirborði þar sem grunnvatn hefur komist í návígi við heitt berg, innskot eða kviku neðanjarðar. Við það hitnar vatnið, verður eðlisléttara og streymir upp til yfirborðs. Í jarðhitakerfum verða efnaskipti milli vatns og bergs og í heitu jarðhitavatni er mikið af uppleystum efnum, svo sem kísill, kalk, brennisteinn, málmjónir og fleira. Þegar vatnið kólnar og þrýstingur lækkar falla þessi efni út á yfirborði eða fylla upp í holrými eða sprungur neðanjarðar. Til að viðhalda jarðhitasvæðum þarf varmagjafinn að endurnýjast reglulega með nýjum kvikuinnskotum eða nýjum sprungum í berggrunninum.

Jarðhitasvæðum á Íslandi er skipt upp í lághitasvæði og háhitasvæði.

Lághitasvæði

Stærstu lághitasvæðin virðast flest vera þar sem virkar sprungur skera forn háhitasvæði sem í dag liggja utan virku gosbeltanna, til dæmis jarðhitinn í Mosfellsbæ. Helstu yfirborðseinkenni á lághitasvæðum eru laugar og vatnshverir. Á lághitasvæðum er jarðhitavatnið basískt og inniheldur lítið af uppleystum efnum. Útfellingar og ummyndun bergs á yfirborð eru því litlar en stundum má finna hverahrúður. Svo virðist sem vatn lághitasvæða sé komið langt að. Laugar eru algengar um allt land nema á Austfjörðum. Deildartunguhver í Borgarfirði er stærsti og vatnsmesti hver jarðar.

Háhitasvæði

Háhitasvæði á Íslandi eru um 20 afmörkuð svæði. Þau liggja öll innan gosbeltanna og eru tengd virkum eldstöðvakerfum með megineldstöðvum og sprungukerfum. Í megineldstöðvum er að finna súrt og ísúrt berg og þar er þéttleiki innskota mikill. Helstu einkenni háhitasvæða á yfirborði eru margbreytilegir gufuhverir og leirhverir. Jarðhitagufan er súr við yfirborð og inniheldur ýmsar gastegundir, en jarðhitavatnið er basískt og inniheldur mikið magn af uppleystum efnum. Því eru útfellingar á yfirborði yfirleitt mjög miklar og þær algengustu eru hverasölt, brennisteinn, kísill og kalk. Hrúðurhellur myndast á yfirborði þar sem mikið er af uppleystum efnum í jarðhitavatninu og þar sem vatnsrennsli er mikið. Mikið ummyndað berg á yfirborði er einkennandi fyrir flest háhitasvæðin. Vatn háhitasvæðanna virðist vera skammt að komið og er oftast úrkoma sem fallið hefur í nágrenni svæðisins.

Goshverir eru sjaldgæf jarðhitafyrirbæri sem þekkjast bæði á lághita- og háhitasvæðum þar sem grunnvatnsstaða er há. Goshverir gjósa þegar gasríkt vatn nær hita yfir suðumarki djúpt í gospípu hversins. Vatnið hvellsýður undir þrýstingi sem veldur gufusprengingu og vatnið þeytist út um gosopið. Geysir í Haukadal er þekktasti goshver í heimi þótt hann hafi ekki verið virkur í langan tíma. Nafn hans er alþjóðlegt heiti yfir goshveri.

Í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd er kveðið á um að jarðhitasvæði njóti sérstakrar verndar, þar stendur „ ... hverir og aðrar heitar uppsprettur ásamt lífríki sem tengist þeim og virkri ummyndun og útfellingum, þar á meðal hrúðri og hrúðurbreiðum„.

Torfajökull

Innan Torfajökulsöskjunnar er stærsta og öflugasta háhitasvæði landsins með bæði vatnshverum og gufuhverum. Jarðhitinn á yfirborði er afar fjölbreyttur og þar er mikið um fágæt jarðhitafyrirbæri. Helstu sérkenni jarðhitans á Torfajökulssvæðinu eru svokallaðar soðpönnur. Þar má einnig finna leirhveri, leiruga vatnshveri, gufuhveri, brennisteinsþúfur og ummyndunarbreiður. Heit jörð með gufuaugum og hverasölt eru útbreidd. Víða eru volgar ölkeldur og við jaðar háhitasvæðisins eru kolsýruhverir og laugar.