Vernd jarðminja

Hugmyndafræði náttúruverndar hefur lengi vel kristallast í verndun lifandi náttúru en á síðustu áratugum hefur mönnum orðið ljóst að hin dauða náttúra skipar stórt hlutverk í fjölbreytileika náttúrunnar í heild sinni.  Víða erlendis er verndun jarðminja orðin mikilvægur þáttur í náttúruvernd en hér á landi er umræðan fremur ný.

Engir samningar eru til á alþjóðavettvangi sem taka til jarðminjaverndar á sama hátt og samningar um verndun lífríkis en unnið er að því að koma jarðminjum inn í samninga um náttúruvernd í Evrópu. Evrópsku samtökin ProGeo (The European Association for the Conservation of the Geological Heritage) vinna að verndun jarðminja og landslags, auk fræðslu. Þau eru í samstarfi við Alþjóðanáttúruverndarsambandið, IUCN, og Alþjóðajarðfræðisambandið, IUGS.

Mikil þörf er fyrir verndun jarðminja hér á landi. Þær þarf að vernda annars vegar á vísindalegum grunni og hins vegar er nauðsynlegt að vernda landslag og jarðfræðilega ásýnd landsins. Mikilvægt er að efla fræðslu og vitund fólks um gildi jarðminja og verndun þeirra til framtíðar.

Hugtök í jarðminjavernd

Jarðminjar (e. geoheritage). Hvers kyns jarðfræðileg fyrirbæri ásamt þeim ferlum sem hafa myndað þau og mótað. Jarðminjar taka til dauðrar náttúru og ferlin eru samofin þeim öflum sem mynda og móta jörðina, þar er til dæmis átt við eldgos, jarðskorpuhreyfingar, vatn og veðrun.

Jarðbreytileiki (e. geodiversity). Róf eða breytileiki jarðfræðilegra fyrirbæra, myndana og ferla, auk jarðvegs. Mikilvægt er að undirstrika að jarðbreytileiki tekur aðeins til eiginleika hinnar dauðu náttúru en snýst ekki um magn. Hugtakið felur ekki í sér að mikill breytileiki á tileknu svæði sé mikilvægari en lítill breytileiki, heldur að náttúrulegi breytileikinn sé mikilvægur.

Jarðminjavernd (e. geoconservation). Verndun jarðbreytileikans vegna eigin gildis, vistfræðilegs gildis eða minjagildis. Jarðminjavernd nær til varðveislu náttúrulegs rófs og breytileika hins dauða hluta náttúrunnar, það er bergrunns og jarðgrunns að meðtöldum landformum og jarðvegi. Mikilvægt er að hún nær til náttúrulegra ferla, hraða þeirra og umfangs. Með eigin gildi (e. intrinsic value) er átt við að jarðminjar geti haft þýðingu án þess að gildi þeirra tengist hagsmunum mannsins. Vistfræðilegt gildi jarðminja lýtur að samspilinu við lífríkið og minjagildið er fyrst og fremst mannhverft, til dæmis vegna vísinda, fræðslu og fegurðar.

Dixon, G. 1995. Geoconservation: an international review and strategy for Tasmania. A report to the Australian Heritage Commission, Occational paper No. 35. Tasmania: Park & Wildlife Service.

Helgi Torfason og Ingvar Atli Sigurðsson 2002. Verndun jarðminja á Íslandi: tillögur vegna náttúruverndaráætlunar 2002. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-02019. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands. http://utgafa.ni.is/skyrslur/2002/NI-02019.pdf

Kristján Jónasson og Sigmundur Einarsson 2009. Jarðminjar á háhitasvæðum Íslands: jarðfræði, landmótun og yfirborðsmerki jarðhita. Náttúrufræðistofnun Íslands, NÍ-09012. Reykjavík: Náttúrufræðistofnun Íslands. http://utgafa.ni.is/skyrslur/2009/NI-09012.pdf

Sharples, C. 2002. Concepts and principles of geoconsercation. Tasmanian Parks & Wildlife Service. http://dpipwe.tas.gov.au/Documents/geoconservation.pdf

Sigmundur Einarsson, Kristján Jónasson og Lovísa Ásbjörnsdóttir 2012. Landið var fagurt og frítt: um vernd jarðminja. Náttúrufræðingurinn 82 (1–4), bls. 151–159.