Tæpir 9 hektarar brunnu á Miðdalsheiði

Laugardaginn 23. júní s.l. brunnu 8,9 hektarar lands á Miðdalsheiði ofan Reykjavíkur. Þar er víðáttumikil mosaþemba með stinnastör og krækilyngi og er svæðið heilbrunnið og gróður illa farinn. Mosinn sem myndar mosaþembuna nefnist hraungambri Racomitrium lanuginosum og vex hann afar hægt. Líklegt er að það taki mörg ár fyrir hann að mynda samfellda breiðu á nýjan leik. Áform eru uppi um að fylgjast með framvindu gróðurs á brunasvæðinu á næstu árum.

Slökkvistarf og flagmói stöðvuðu útbreiðslu eldsins

Starfsmenn Náttúrufræðistofnunar fóru um brunasvæðið á Miðdalsheiði mánudaginn 25. júní, 2007 tveimur dögum eftir að svæðið brann. Gengið var með jaðri brennda landsins og var það kortlagt nákvæmlega með GPS-mælingu.

Í ljós kom að heildarflatarmál brunasvæðisins er 8,9 ha. Hvass vindur af norðnorðaustri var á heiðinni þegar eldurinn kom upp og brann mjó tunga undan vindi til suðsuðvesturs. Mesta lengd hennar frá upptökum er 750 metrar. Brunasvæðið breikkar eftir því sem sunnar dregur og er mesta breidd þess 190 metrar. Við suðurendann klofnar það um flagmóa sem eldurinn hefur stöðvast við en þar var eldsmatur lítill. Á Miðdalsheiði er víðáttumikil mosaþemba með lyngi, stinnastör og grösum. Umfangsmiklar aðgerðir slökkviliðsmanna komu í veg fyrir að eldurinn breiddist víðar um heiðina.

Mosinn illa brunninn

Við brunann hefur gróður farið mjög illa. Svæðið er heilbrunnið og hefur mosaþemban brunnið niður í mold á þúfnakollum og bungum þar sem þurrast var. Í lægðum þar sem raki var meiri brann mosinn ekki niður í mold.

Nokkuð er af lifandi rótum af stinnastör, krækilyngi og grasvíði í óbrunnum mosa og er líklegt að þessar tegundir muni lifna þegar líður á sumar. Einnig má reikna með að einhver fræforði sé í landinu sem plöntur muni vaxa upp af á næstu árum. Mosinn hraungambri (Racomitrium lanuginosum) sem myndar mosaþembuna sem brann vex hins vegar afar hægt. Líklegt er að það taki mörg ár fyrir hann að mynda samfellda breiðu á landinu á nýjan leik. Áform eru uppi um að fylgjast með landnámi gróðurs á brunasvæðinu á næstu árum.

Rúmt ár frá Mýraeldum

Vorið 2006 brunnu yfir 6 þúsund hektarar lands í sinueldunum miklu á Mýrum. Þar standa yfir umfangsmiklar rannsóknir Náttúrufræðistofnunar og fleiri stofnana á áhrifum eldanna á lífríki lands og vatna.

Nánar um Mýraelda