Landupplýsingar

Eitt af hlutverkum Náttúrufræðistofnunar Íslands er að kortleggja lífríki og jarðminjar landsins. Með því verða til svonefndar landupplýsingar, sem eru rafræn gögn með upplýsingum um staðsetningu og gerð fyrirbæris. Stofnunin býr yfir stórum gagnasöfnum landupplýsinga, meðal annars um, gróðurfélög, vistgerðir, berg- og jarðgrunn, útbreiðslu lífvera, steingervinga og steinda. Gögn þessi endurspegla jafnframt breytingar á náttúrufari í áranna rás, þar sem rannsóknir ná yfir langt tímabil.

Landupplýsingar eru vistaðar í gagnasöfnum og er unnið með þau í landfræðilegum landupplýsingakerfum (GIS). Helstu landupplýsingakerfi og hugbúnaður sem Náttúrufræðistofnun Íslands hefur kosið að vinna með eru ArcGIS frá Esri, MicroStation frá Bentley, Global Mapper og QGis.

Á síðustu árum hefur færst í vöxt að nota fjarkönnun við kortlagningu. Með fjarkönnun er átt við könnun úr fjarlægð, til dæmis rannsókn á yfirborði jarðar gerð úr flygildum, flugvél eða frá gervihnetti.

Loftljósmyndastofa var tekin í notkun á Náttúrufræðistofnun árið 2019 en búnaður hennar gerir mögulegt að kortleggja svæði á þrívíddarlíkönum og dæmi um slíkt er Surtsey í þrívídd. Gerð landlíkana í góðri upplausn byggir á loftljósmyndum sem teknar eru úr flugvélum eða flygildum. Þessi aðferð mun flýta fyrir kortlagningu í nákvæmari mælikvarða og gerð landlíkana í góðri upplausn. 

Kortagerð á vegum Náttúrufræðistofnunar Íslands felur í sér úrvinnslu, framsetningu og miðlun landupplýsinga sem stofnunin býr yfir.