Dýrasafn

Í dýrasafni Náttúrufræðistofnunar Íslands eru rúmlega 300 þúsund tegundasýni, en í hverju sýni geta verið frá einu til nokkur þúsund eintök. Markmiðið er að safneintökin endurspegli hverskyns breytileika tegunda á öllum stigum lífsferilsins og sem víðast innan útbreiðslusvæðis hverrar tegundar. Dýrasafnið er grunnur ýmissa rannsókna í flokkunarfræði, einkum við að kortleggja breytileika í svipgerð tegunda; að greina skil milli líkra eða breytilegra tegunda; við endurskoðun á tegundalýsingum og flokkunarkerfum sem endurspegla þróunarskyldleika.

Tölvuskráning alls safnkostsins nýtist við gerð útbreiðslukorta, samantekta á tegundatali, válistum, mótun safnastefnu og miðlun upplýsinga á netinu.

Auk þess þá veitir dýrasafnið aðgang að sýnum sem eru sárasjaldgæf eða óaðgengileg úti í náttúrunni, vegna mikils kostnaðar og fyrirhafnar við að afla nýrra sýna. Í dýrasafninu eru aukinheldur tiltæk eintök frá liðnum árum og öldum, en þau nýtast til samanburðar við núlifandi eintök, til dæmis ef meta á aukinn styrk ýmissa aðskotaefna í núlifandi dýrum. Dýraeintök eru lánuð tímabundið úr safninu til rannsókna eða á sýningar samkvæmt reglum Náttúrufræðistofnunar Íslands um gripalán