Lög og reglugerðir

Hlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er skilgreint í 4. grein laga númer 60/1992 um Náttúrufræðistofnun Íslands og náttúrustofur og reglugerð númer 229/1993.

Önnur lög er varða starfsemi Náttúrufræðistofnunar Íslands

Í lögum nr. 60/2013 um náttúruvernd er að finna ákvæði um hlutverk Náttúrufræðistofnunar í tengslum við friðlýsingu náttúruminja á landi og í sjó, stofnun þjóðgarða, gerð náttúruverndaráætlunar og náttúruminjaskrár og fleira.

Í lögum nr. 55/2013 um velferð dýra er kveðið á um að Umhverfisstofnun afli umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og Matvælastofnunar varðandi föngun á villtum dýrum áður en leyfi til þess er veitt.

Í lögum nr. 90/2011 um skeldýrarækt er Náttúrufræðistofnun meðal annarra umsagnaraðili hvað varðar svæðaskiptingu skeldýraræktar, staðbundins banns og ræktunarleyfis.

Í 10 gr. laga nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun er kveðið á um að verkefnisstjórn skuli m.a. leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um hvort fyrirliggjandi gögn varðandi einstaka virkjunarkosti eru nægjanleg til að meta þá þætti sem taka skal tillit til í verndar- og orkunýtingaráætluninni.

Í 9. og 10. gr. laga nr. 36/2011 um stjórn vatnamála er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun veiti ráðgjöf og tilnefni fulltrúa í rágjafanefnd um málaflokkinn.

Í lögum nr. 60/2007 um Vatnajökulsþjóðgarð er kveðið á um að verndaráætlun skuli m.a. unnin í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands. Einnig skal leita álits stofnunarinnar á vistfræðilegu þoli þeirra svæða þar sem ætlunin er að veiðar og búfjárbeit verði heimil en við setningu reglugerðar skal við það miðað að landnýting innan þjóðgarðsins sé sjálfbær að mati Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í 3. gr. laga nr. 35/2007 um Náttúruminjasafn Íslands er Náttúrufræðistofnun Íslands vísindalegur og faglegur bakhjarl Náttúruminjasafnsins. Stofnanirnar skulu hafa með sér náið samstarf sem skal grundvallast á sérstöku samkomulagi milli þeirra. Safnkostur Náttúruminjasafns Íslands er ásamt vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar undirstaða fræðslu- og sýningarstarfsemi safnsins og rannsókna þess.

Í 3. gr. laga nr. 116/2006 um stjórn fiskveiða er kveðið á um að Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skuli stunda rannsóknir og vöktun á sjávargróðri og vistgerðum, vistkerfum og lífríki sem tengist honum. Hafrannsóknastofnun skal vera stjórnvöldum til ráðgjafar um nýtingu sjávargróðurs, sbr. II. kafla A, og skal leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands um ráðgjöf sína. Ráðgjöf, rannsóknir og vöktun á nýtingu sjávargróðurs skal m.a. taka mið af 2. gr. laga um náttúruvernd um verndarmarkmið fyrir vistgerðir, vistkerfi og tegundir og lögum um vernd Breiðafjarðar. Hafrannsóknastofnun og Náttúrufræðistofnun Íslands skulu gera vöktunaráætlun um nýtingu sjávargróðurs sem verður hluti af vöktun lykilþátta íslenskrar náttúru í samræmi við 1. og 2. mgr. 74. gr. laga um náttúruvernd.

Í 11. gr. laga nr. 61/2006 um lax- og silungsveiði er kveðið á um að leita skuli m.a. umsagnar Náttúrufræðistofnunar til að heimila ófriðun sellátra og upptöku allra selalagna í eða við veiðivatn eða fiskihverfi. Í 25. gr. laganna skal leita umsagnar stofnunarinnar ef rétt þykir að eyða fiski eða lagardýrum úr veiðivatni vegna sjúkdóma eða sníkjudýra.

Í 5. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda er Náttúrufræðistofnun Íslands meðal annarra ráðherra til ráðgjafar um þau atriði sem að lögunum lúta og heyra undir starfsemi þeirra.

Í 24. gr. laga nr. 13/2001 um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis er fjallað um samráðshóp eftirlitsaðila vegna leitar, rannsóknar og vinnslu kolvetnis við Ísland. Orkustofnun skal starfrækja og leiða starf samráðshópsins en í honum situr m.a. fulltrúi skipaður af Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í 16. gr. búnaðarlaga nr. 70/1998 skipar ráðherra í erfðanefnd landbúnaðarins að fengnum tilnefningum m.a. frá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Í 34. gr. laga nr. 57/1998 um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun hafi eftirlit með rannsóknum á og nýtingu á örverum á jarðhitasvæðum, sbr. rg. nr. 234/1999. Örverur sem uppruna eiga á jarðhitasvæðum og erfðaefni þeirra, má ekki flytja úr landi nema með leyfi Náttúrufræðistofnunar Íslands og með þeim skilyrðum sem stofnunin setur hverju sinni.

Í 3. gr. laga nr. 49/1997 um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum er kveðið á um að Náttúrufræðistofnun skuli afla gagna um skriðuföll og hættu af þeirra völdum í samstarfi við Veðurstofuna.

Í 17. gr. laga nr. 18/1996 er kveðið á um að Umhverfisstofnun leggi mat á hverja umsókn um sleppingu eða dreifingu erfðabreyttra lífvera á grundvelli framkominna gagna og umsagna og taki afstöðu til þess hvort leyfi skuli veitt, að fengnum tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Í 7. gr. laga nr. 54/1995 um vernd Breiðafjarðar segir að Náttúrufræðistofnun Íslands skuli með rannsóknum vinna markvisst að því að auka þekkingu á náttúru fjarðarins til að tryggja sem best verndun hans.

Samkvæmt 4. gr. laga nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, ber Náttúrufræðistofnun að stunda rannsóknir á villtum dýrum og vera til ráðgjafar um ástand og veiðiþol þeirra stofna sem veiðar eru stundaðar á. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur ein heimild til að láta merkja villta fugla á Íslandi og ber hverjum þeim sem finnur eða handsamar merktan fugl að senda merkið til Náttúrufræðistofnunar Íslands ásamt nánari upplýsingum um fundinn.

Í 5. gr. laga nr. 54/1990 segir: ,,Áður en leyfi er veitt til innflutnings á nýjum dýrategundum eða erlendum stofnum tegunda sem hér eru fyrir skal ráðherra afla umsagnar erfðanefndar landbúnaðarins. Til slíks innflutnings skal jafnframt afla leyfis Umhverfisstofnunar í samræmi við ákvæði 63. gr. laga um náttúruvernd.” Náttúrufræðistofnun á bæði fulltrúa í erfðanefnd landbúnaðarins, skv. 16. gr. Búnaðarlaga nr. 70/1998 og í ráðgjafanefnd sérfræðinga um innflutning og ræktun framandi tegund og dreifingu lífvera skv. 63. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Önnur lög

Oft er leitað umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands í tengslum við ýmis lög, svo sem vegna hlutverks hennar um ráðgjöf vegna landnýtingar, þau helstu eru:

Lög nr. 33/2019 um skóga og skógrækt

Lög nr. 155/2018 um landgræðslu

Lög nr. 96/2018 um Ferðamálastofu

Lög nr. 88/2018 um skipulag haf- og strandsvæða

Lög nr. 20/2016 um landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum

Lög nr. 40/2015 um meðferð elds og varnir gegn gróðureldum

Efnalög nr. 61/2013

Lög nr. 55/2013 um velferð dýra

Lög nr. 80/2012 um menningarminjar

Lög nr. 55/2012 um umhverfisábyrgð

Lög nr. 123/2010, Skipulagslög

Lög nr. 85/2005 um verndun Þingvallavatns og vatnasviðs þess

Lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

Lög nr. 47/2004 um Þjóðgarðinn á Þingvöllum

Lög nr. 106/2000 um mat á umhverfisáhrifum

Lög nr. 85/2000 um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu

Lög nr. 75/2000 um brunavarnir

Lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir

Lög nr. 93/1995 um matvæli

Reglugerðir

Leita má að reglugerðum sem tengjast Náttúrufræðistofnun á reglugerðarvefnum.