Laugakönguló (Pirata piraticus)

Útbreiðsla

Umhverfis norðurhvel. Gjörvöll Evrópa, Rússland austur að Yenisei í Síberíu, austur til Sýrlands og Palestínu; Færeyjar. N-Ameríka; Bandaríkin, Kanada, Nýfundnaland.

Ísland: Um land allt, jafnt á láglendi sem hálendi en er alfarið bundin jarðhita á miðhálendinu. Algengari sunnanlands en norðan.

Lífshættir

Laugakönguló er rakasækin og hitakær. Hún finnst hvarvetna við heitar laugar þar sem hún veiðir gjarnan bráð sína úti á þörungabreiðum sem fljóta á laugunum. Finnst einnig í barnamosamýrum þar sem vatn stendur hátt, einnig á gljám með grunnu yfirborðsvatni sem hitnar auðveldlega upp í sólskini.

Almennt

Laugakönguló er mjög áhugaverð tegund og gaman er að fylgjast með veiðiferðum hennar út á flotþörungana í heitu laugunum. Þar situr gjarnan aragrúi af varmaperlum (Scatella tenuicosta f. thermarum) sem eru henni auðveld bráð. Laugakönguló var lengstum talin bundin við heitar laugar en hefur á seinni árum fundist í auknum mæli fjarri jarðhita. Við rannsóknir á áhrifum sinubruna í Mýrasýslu sumarið 2007 kom í ljós að tegundin var algeng í mýrlendinu. Það vakti enn frekar athygli að hún var til muna meira áberandi þar sem hafði brunnið, væntanlega vegna þess að þar opnaðist svörðurinn þegar sinan hvarf og svört askan sem eftir lá drakk í sig sólarhitann.

Laugakönguló er dæmigerð tegund hnoðaköngulóarættar og verður ekki með vissu greind frá öðrum tegundum nema með skoðun á kynfærum hennar.

Útbreiðslukort

Heimildir

Brændegård, J. 1958. Araneida. Zoology of Iceland III, Part 54. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 113 bls.

Ingi Agnarsson 1996. Íslenskar köngulær. Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 31. 175 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 15. mars 2010

Biota

Tegund (Species)
Laugakönguló (Pirata piraticus)