Blásveðja (Sirex juvencus)

Útbreiðsla

Gjörvöll Evrópa og austur eftir Síberíu til Sakhalíneyjar og Japans og suður til Filippseyja, Ástralíu og Nýja-Sjálands; Alsír í N-Afríku, N-Ameríka.

Ísland: Víða á suðvestan- og vestanverðu landinu, frá Keflavík allt vestur til Ísafjarðarkaupstaðar, á Suðurlandi frá Þorlákshöfn upp í lágsveitir, einnig Húsavík.

Lífshættir

Blásveðja lifir fyrst og fremst á furutegundum (Pinus), en einnig á greni (Picea) og þini (Abies). Flugtíminn er fyrst og fremst í júlí til ágúst. Þá makast dýrin og kvendýrin verpa eggjum sínum í holur sem þau bora ofan í trjábörk, einkum á aldurhnignum og jafnvel deyjandi barrtrjám. Þau verpa einu til fimm eggjum í hverja holu, í það heila um 100 eggjum. Lirfurnar éta sig síðan allt að 17 mm ofan í viðinn og halda sig þar yfir vetrartímann. Á vorin éta þær sig til baka í átt að yfirborðinu. Uppvöxturinn tekur um tvö ár. Lirfurnar púpa sig nálægt yfirborðinu. Þegar fullorðnu dýrin skríða úr púpum naga þau sig út úr trénu og skilja eftir sig víð borgöt.

Almennt

Blásveðja er algengust trjávespna sem berast hingað til lands með viði, einkum timbri og vörubrettum. Eins og beltasveðja (Urocerus gigas) hefur hún þekkst hér frá fornu fari. Trjávespu var fyrst getið í Skýrslu Náttúrufræðifélagsins 1903–05: „Trjáhvespa úr timbri í Rvík“, sem af höfundi heftis um æðvængjur í Zoology of Iceland er talin til þessarar tegundar. Hann kann að hafa séð eintakið. Sömu sögu er að segja af skráningu í Skýrslu 1933–34: „Trjávespa úr Rvík“.

Hvað sem sannleiksgildi ofanskráðra tilvika áhrærir þá er í safni Náttúrufræðistofnunar varðveitt eintak af þessari tegund, sem fannst í Reykjavík í júní 1907. Lengi vel var aðeins greint á milli tveggja tegunda trjávespna sem hér fundust, þ.e. beltasveðju og blásveðju, og var sú aðgreining einföld. Nú hefur nýleg athugun leitt í ljós að á meðal blásveðjanna hefur leynst henni náskyld og nauðalík tegund, blökkusveðja (Sirex noctilio), jafnvel gömul eintök í safni Náttúrufræðistofnunar frá árunum 1947 og 1949. Af þessum sökum er lítt treystandi á gamlar greiningar þar sem blásveðja hefur verið niðurstaðan. Reyndar kann málið að vera enn flóknara og blökkusveðjurnar að tilheyra fleiri en einni tegund. Af ættkvíslinni Sirex eru nefnilega nokkrar afar líkar tegundir í barrskógum umhverfis norðurhvel, sem allar gætu borist hingað til lands með timburflutningum. Það fylgir nefnilega sjaldnast sögunni hvaðan viðurinn sem dýrin ber hingað kemur.

Í safni Náttúrufræðistofnunar eru alls varðveittar 145 staðfestar blásveðjur, eftir að 21 blökkusveðja hafði verið aðskildin frá safninu. Þar má finna eintök frá árunum 1960, 1966, 1967 og 1971. Upp úr því fer blásveðjum fjölgandi í kjölfar þess að skordýrafræðingur kom til starfa á stofnuninni (1978) og betur varð haldið utan um tilkynningar. Blásveðjur tóku þá að berast stofnunni nær árlega, flestar á 9. og 10. áratugnum, oft allt að 10 eintök á ári. Þegar leið að aldamótum dró úr fjöldanum og bárust Náttúrufræðistofnun að jafnaði tvö eintök á ári á árabilinu 1998–2010, frá engu upp í fimm. Hvað þetta áhrærir sýnir blásveðja sama mynstur og beltasveðja. Þessi fækkun beggja tegundanna í seinni tíð verður ekki auðveldlega skýrð. Ef til vill hefur orðið breyting á umgjörð vöruinnflutnings. Vörubrettum framleiddum úr viði úr lélegum trjám kann t.d. að hafa fækkað.

Langflestar blásveðjur berast til landsins í ágúst. Fundartími tegundarinnar hér á landi er þó ekki eins afgerandi samanþjappaður og fundartími beltasveðju þar sem helmingurinn hefur fundist í ágúst. Alls hefur 41 blásveðja fundist í ágúst eða tæp 30%. Tiltölulega jafn fjöldi hefur síðan fundist í öðrum mánuðum frá maí til október eða í kringum 20 í hverjum mánuði, með fallanda frá 24 eintökum í maí niður í 14 eintök í október. Fáar hafa fundist utan þess tíma.

Blásveðja er líkleg til að setjast að í íslenskum trjáræktarlundum, en landnám hefur ekki verið staðfest enn sem komið er.

Blásveðja er stór og áþekk beltasveðju í sköpulagi, með langan sívalan bol og varppípu sem stendur allangt aftur úr bolnum, þ.e. á kvendýrum. Stærð blásveðju er þó e.t.v. enn breytilegri; lengdin á bilinu 16–38 mm aftur á enda varppípunnar. Bolurinn er einnig heldur grennri eða mest um 5 mm. Blásveðja er frábrugðin beltasveðju á lit. Kvendýrin eru einlit blásvört frá höfði og aftur úr. Á karldýrum er afturbolur blásvartur fremst en síðan áberandi rauðgulur nema dökkleitur aftast. Fyrstu liðir fálmara eru rauðgulir á báðum kynjum en annars eru þeir dökkir. Fætur er gulir, þó aðeins lærliðir á afturfótum karldýra sem eru dökkir að öðru leyti. Blökkusveðja aðgreinist frá blásveðju á aldökkum fálmurum og ívið dekkri lærliðum fóta, sem þó virðist breytilegt og kann að benda til að um fleiri en eina tegund sé að ræða. Svo virðist sem karldýr hafi dekkri afturenda.

Útbreiðslukort

Myndir

Heimildir

Olsen, L.-H., J. Sunesen & B.V. Pedersen 2009 (4. útg.). Små dyr i skoven. Gyldendal, Kaupmannahöfn. 246 bls.

Petersen, B. 1956. Hymenoptera.. Zoology of Iceland III, Part 49–50. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 176 bls.

Schiff, N.M., S.A. Valley, J.R. LaBonte & D.R. Smith 2006. Guide to the Siricid Woodwasps of North America. USDA Forest Service, Morgantown, West Virginia. 102 bls.

Skýrsla um Hið íslenska náttúrufræðifélags 1903–05, 1933–34.

Wikipedia. Sirex juvencus. http://en.wikipedia.org/wiki/Sirex_juvencus [skoðuð 13.4.2011]

Höfundur

Erling Ólafsson 13. apríl 2011, 23. mars 2013

Biota

Tegund (Species)
Blásveðja (Sirex juvencus)