Sjávarkletta- og eyjavist

L7.7

Eunis-flokkun

B3.31 Atlantic sea-cliff communities.

Sjávarkletta- og eyjavist
Mynd: Sigmar Metúsalemsson

Sjávarkletta- og eyjavist í Hvallátrum á Breiðafirði. Ríkjandi tegundir eru ætihvönn, bugðupuntur og vallarsveifgras. Gróðursnið HL-09. – Atlantic sea-cliff community in western Iceland.

Sjávarkletta- og eyjavist
Mynd: Borgþór Magnússon

Sjávarkletta- og eyjavist í Elliðaey í Vestmannaeyjum. – Atlantic sea-cliff community in one of the Vestmannaeyjar islands, south of Iceland.

Lýsing

Mjög gróskumikið gras- og blómlendi í fuglabjörgum og eyjum undir miklum áhrifum af sjávarseltu og áburði frá sjófugli. Gróður breytilegur eftir vaxtarstöðum; skarfakál, holurt, o.fl. tegundir eru algengar í björgum, en hreinna graslendi með túnvingli, vallarsveifgrasi og blómjurtum á sléttlendi ofan fjöru og brúna. Halli allt frá sléttlendi til þverhnípis. Gróður er allhávaxinn, æðplöntur ríkjandi en lítið um mosa og fléttur.

Plöntur

Fjöldi tegunda æðplantna, mosa og fléttna er undir meðallagi. Ríkjandi tegundir eru ætihvönn (Angelica archangelica), melgresi (Leymus arenarius) og bugðupuntur (Deschampsia flexuosa). Af mosum eru algengastir engjaskraut (Rhytidiadelphus squarrosus), brekkusigð (Sanionia orthothecioides) og ögurmosi (Ulota phyllantha) en af fléttum finnast helst lundatarga (Lecanora straminea) og klappa­gráma (Physcia caesia).

Jarðvegur

Áfoksjörð er ríkjandi, jarðvegur er fremur grunnur, mjög ríkur af kolefni og sýrustig fremur lágt.

Fuglar

Mjög ríkulegt fuglalíf, sjófuglategundir algengastar, einnig landfuglar eins og snjótittlingur (Plectro­phenax nivalis), maríuerla (Motacilla alba), hrafn (Corvus corax) og stelkur (Tringa totanus), hrossagaukur (Gallinago gallinago) og haförn (Haliaeetus albicilla) í eyjum og hólmum.

Líkar vistgerðir

Blómgresisvist og língresis- og vingulvist.

Útbreiðsla

Finnst í öllum landshlutum þar sem sjófuglabyggðir eru í strandbjörgum, eyjum og hólmum. Mest í Vestmannaeyjum, á Reykjanesskaga, við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og með norður- og austurströnd landsins.

Verndargildi

Hátt. Vistgerðin er á lista Bernarsamningsins frá 2014 yfir vistgerðir sem þarfnast verndar.

Sjávarkletta- og eyjavist

Sjávarkletta- og eyjavist er fágæt en hún finnst í 9% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 130 km2, óvissa lítil. – The habitat type is rare in Iceland and is found within 9% of all grid squares. Its total area is estimated 130 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í sjávarkletta- og eyjavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá