Alaskalúpína

Alaskalúpína (Lupinus nootkatensis) finnst í öllum landshlutum og hefur náð sér víða á strik í kringum þéttbýli. Lúpínan setur oftar en ekki mikinn svip á landslag og gróður og verður gjarnan ríkjandi tegund í gróðurfari.

Líffræði alaskalúpínu hefur verið rannsökað nokkuð hér á landi og á vefsvæði NOBANIS-verkefnisins má lesa á ensku samantekt um vistfræði tegundarinnar (pdf). Auk þess sem frekari upplýsingar eru að finna á vefnum Ágengar tegundir.

Alaskalúpína
Mynd: Erling Ólafsson

Alaskalúpína

Uppruni og útbreiðsla

Alaskalúpína vex villt í Norður‐Ameríku og er talin hafa verið flutt hingað til lands árið 1895 sem garðaplanta. Um miðbik síðustu aldar flutti Hákon Bjarnarson fyrrum skógræktarstjóri hingað til lands fræ og rætur af tegundinni frá Alaska og var þá byrjað að nýta hana til landgræðslu. Lengi vel var útbreiðsla tegundarinnar takmörkuð en einkum eftir 1990 jókst útbreiðslan og er alaskalúpína nú útbreidd um land allt. Þessar breytingar má rekja til ýmissa breytinga svo sem minni sauðfjárbeitar eftir 1980 og aukinnar notkunar alaskalúpinu til landgræðslu og skógræktar. Tegundin er nú við allmarga þéttbýlisstaði og á skógræktar- og landgræðslusvæðum en einnig þar sem land er friðað eða sauðfjárbeit lítil. Alaskalúpína hefur víða breiðst inn á hálf- eða vel gróið land og finnst einnig til fjalla og inni á hálendinu.

Einkenni og kjörlendi

Tegundin er stórvaxin og ná stönglar sums staðar ríflega 1,2 m hæð. Fræframleiðsla er mikil og geta fræ lifað í jarðvegi í nokkur ár en einnig eru dæmi um að alaskalúpina fjölgi sér með rótarskotum. Talið er að æviskeið plantna geti verið allt að 30 ár.

Alaskalúpína er af ertublómaætt og getur bundið köfnunarefni (N) úr andrúmslofti sem hún nýtir sér til vaxtar en skilar því einnig til jarðvegsins þegar plöntuhlutar hennar brotna niður og eykur þannig frjósemi jarðvegs. Þessi eiginleiki gerir henni mögulegt að dafna þar sem jarðvegur er rýr og aðrar plöntutegundir eiga erfitt uppdráttar. Vegna þessara eiginleika er alaskalúpínan öflug landgræðslujurt en á sama tíma er hún ráðandi tegund. Kjörlendi tegundarinnar eru melar, áreyrar og rýrt mólendi.

Áhrif á vistkerfi og menn

Þar sem alaskalúpínan nær sér á strik og myndar þéttar breiður breytir hún eiginleikum jarðvegs og gjörbreytir gróðurfari. Tegundin verður ríkjandi og tegundir sem fyrir voru hörfa flestar og þekja þeirra minnkar mikið. Einna helst ná skuggaþolnar og áburðarkærar grastegundir að dafna í lúpínubreiðunum. Þar sem alaskalúpínu er sáð eða nemur land á mjög gróðursnauðum og rýrum svæðum, eykst frjósemi jarðvegs og tegundum getur fjölgað.

Mögulegar aðgerðir

Hægt er að stemma stigu við útbreiðslu alaskalúpínu með nokkrum leiðum. Fyrsta skerfið skal snúa að því að koma í veg fyrir fræfall þar sem líftími frjæja er langur. Stakar plöntur er hægt að rífa eða grafa upp en þegar breiður eru stórar skal slá þar sem því er við komið. Þegar alaskalúpína er slegin stuttu fyrir fræfall hefur hún sett megnið af forðanum í fræframleiðslu og dregur þá mjög úr endurvexti. Beit hefur einnig mikil áhrif á vöxt og nýliðun plantna. Ávallt skal líta á úðun eiturs sem neyðarúrræði og hafa skal samráð við fagaðila áður en hafist er handa.

Var efnið hjálplegt? Aftur upp

Aftur upp

Takk fyrir!

Hvað má betur fara?

  • Fela
  • |