Sveppir

Sveppir tilheyra svepparíki (Fungi). Þeir eru heilkjarna og ófrumbjarga lífverur því þeir eru án grænukorna og ljóstillífa ekki. Í staðinn draga þeir í sig næringu uppleysta úr umhverfinu.

Sveppir hafa flestir þráðlaga líkama sem greinist þegar hann stækkar. Þræðirnir eru oftast afar grannir og geta borað sér inn í ótrúlega litlar glufur. Stöku sveppir eru þó einfruma. Þeir gefa frá sér efni sem melta eða brjóta niður næringuna sem þeir sjúga upp í þræðina og vaxa svona áfram étandi.

Sveppir tengjast öðrum lífverum, hýslum sínum, hýslinum ýmist til gagns eða tjóns. Þeir finnast nánast alls staðar þar sem líf er að finna en sjást sjaldnast nema rétt á meðan þeir fjölga sér en þá vefa þeir aldin úr sveppþráðum. Aldin er það sem við köllum sveppi en í þeim myndast gróin sem dreifast út í veröldina.

Sveppir fjölga sér með gróum. Sveppir og gró þeirra geta borist milli staða með plöntum, dýrum og jarðvegi, auk þess sem gró berast langar leiðir með loftstraumum.

SKOÐA FLOKKUNARKERFI OG LEITA AÐ SVEPPUM

 

Lífstíll

Sveppi má flokka eftir lífsstíl þeirra:

Rotsveppir nærast á leifum dauðra plantna eða dýra og valda fúa eða rotnun í þeim. Mikill meirihluti sveppa eru rotsveppir og má þar nefna fúasveppi, jarðvegssveppi og taðsveppi.

Sníkjusveppir eru þeir sveppir sem lifa í eða á hýsli sínum og valda honum oftast einhverjum skaða. Dæmi um þetta eru ryðsveppir, sótsveppir og lyngroðasveppir auk fjölmargra asksveppa og vankynsstiga þeirra.

Samlífssveppir kallast þeir sveppir sem lifa á eða í öðrum lifandi verum eða í nánum tengslum við þær og sambýlið gagnast báðum. Svepprótarsveppir tengjast rótum plantna, fá orkurík kolvetni en láta frá sér steinefni og vatn.

Fjöldi tegunda

Í heiminum eru skráðar um 100.000 tegundir sveppa en þar af eru fléttur og fléttuháðir sveppir nálægt 20.000. Tæplega 2000 tegundir tilheyra ekki sjálfu svepparíkinu, þ.e. 960 tegundir í ríki frumdýra (Protista) og 889 í ríki litvera (Chromista). Reiknað hefur verið út að líklega séu sveppirnir mun fleiri eða 1.500.000 tegundir og því mikið verk framundan við að lýsa þeim og skrásetja.

Á Íslandi eru skráðar nálægt 3000 tegundir, þar af eru fléttur og fléttuháðir sveppir 850. Á hverju ári bætast nokkrar tegundir við.

Fylkingar

Sveppir flokkast í fimm fylkingar: kytrusveppi, oksveppi, glómsveppi, asksveppi og kólfsveppi.  Flestar sveppategundir tilheyra ask- og kólfsveppum.

Kytrusveppir einkennast af bifgróum. Bifgróin synda með einni sléttri svipu sem fest er með svipurót af sérstakri gerð á afturenda þeirra. Líkami kytrusveppa er með mörgum kjörnum í sameiginlegu umfrymi og þegar þeir mynda gró þá verður ýmist allur líkaminn að gróhirslu (holocarpic) eða hluti hans (eucarpic). Kytrusveppir hafa hvatbera með flötum fellingum og kítín í frumuveggjum. Þeir eru ýmist rotverur eða sníklar og lifa flestir í ferskvatni og í jarðvegi, nokkrir í sjó og fáeinir við loftfirrtar aðstæður í meltingarvegi grasbíta.

Til að skoða kytrusveppi eru þeir oftast veiddir á beitu, svo sem furufrjó, klofin hampfræ, sesamfræ, barnshár, eða kakkalakkavængi, sem sett er í vatn eða jarðveg. Í náttúrunni vaxa kytrusveppir líka á vatnaþörungum og á öðrum vatnasveppum.

Frekari fróðleik má finna á vefjunum Mycologue Publications og Chytrid Fungi Online

Oksveppir hafa þráðlaga líkama sem ekki er skipt með þverveggjum nema þar sem fjölgun fer fram. Frumuveggur þeirra er úr kítósan og polyglucronic-sýru.

Gróhirslur oksveppa eru fremur áberandi  á gróhirsluberum. Í þeim myndast vankyns gró. Dvalagró myndast við samruna tveggja miskynja sveppþráða. Þannig eru kjarnar af + æxlunargerð í öðrum þræðinum en af - æxlunargerð í hinum. Milli þráðanna vaxa totur sem hittast á miðri leið. Þar sem þræðirnir hittast lokast inni fjöldi kjarna. Plús- og mínuskjarnar parast og renna saman í einn tvílitna kjarna (2n) sem síðan skiptist með rýriskiptingu. Dvalagróið spírar og upp af því vex gróhirsla sem dreifir einlitna gróum sem spíra og verða einlitna sveppþræðir.

Oksveppir geta vaxið á skemmdum mat, til dæmis á rotnandi kjöti, ávöxtum eða brauði sem myglar og verður grátt eða svart. Þeir eru algengir í jarðvegi og vaxa iðulega á taði.

Stærsti oksveppurinn sem þekktur er hérlendis er Phycomyces nitens  fannst fyrir rúmri öld á gömlu lýsi en hefur ekki sést síðan. Pilobolus tegundir vaxa á taði og ef tekinn er ferskur hrossataðsköggull og geymdur á hlýjum og rökum stað í 2–4 sólarhringa mun hann verða gráskeggjaður af Pilobolus-gróberum. Tegundir af ættkvíslunum Mucor og Mortierella eru mjög algengar í jarðvegi.

Frekari fróðleik má finna á vefnum Mycologue Publications og flokkun oksveppa á Tree of Life web project.

Glómsveppir mynda innræna svepprót með plöntum.

Í heiminum eru skráðar um 230 tegundir innrænna svepparóta en hér á landi eru 11 tegundir þekktar.

Asksveppir er stærsta fylking svepparíkisins og sú fjölbreytilegasta. Svepp­þráðum asksveppa er skipt með þverveggjum. Frumuveggirnir eru úr kítíni og beta-glúkönum og lagskiptir þar sem ytra lagið er þunnt og dökkt en það innra þykkara og ljóst séð í rafeindasmásjá.

Einkenni asksveppa eru sekk-, kylfu- eða hólklaga frumur sem kallast askar. Í þeim myndast einlitna askgró með rýriskiptingu. Askarnir eru vanalega margir saman í hverri askhirslu en askhirslur eru aldin asksveppa. Þessi aldin eru vanalega örsmá (0,5–1 mm) en geta líka verið allstór, jafnvel á stærð við hattsveppi, oft með áberandi litum. Sum aldin eru lokuð og umlykur þá hirsluveggur askana og gróin losna ekki fyrr en askhirslan brotnar í sundur. Önnur aldin eru hnöttótt eða líkjast flösku en eru með op sem gróunum er sleppt út um. Enn önnur aldin eru opin þannig að hirsluveggur er einungis undir asklaginu og upp með því (botn og barmar) og gróin losna beint út í loftið. Vendilssveppir mynda engin eiginleg aldin en vefur hýsilplöntunnar gegnir hlutverki þeirra.

Asksveppir stunda rotlífi, sníkja á öðrum lífverum, og þá einkanlega á plöntum. Þeir mynda einnig fléttur.

Asksveppum er skipt í sex flokka:

Ascomycetes - Næstum allir asksveppir tilheyra þessum flokki og eru um 64.000 tegundir þekktar. Ascomycetes-sveppir skiptist í 12 syrpur:

Neolectomycetes - Þrjár tegundir þekktar

Pneumocystidomycetes – Ein tegund þekkt

Gersveppir (Saccharomycetes) – 290 tegundir þekktar

Schizosaccharomycetes – Fimm tegundir þekktar

Vendilssveppir (Taphrinomycetes) – 115 tegundir þekktar

Enn eru þó nokkrar ættkvíslir og ættir sem ekki er búið að finna stað í kerfinu.

Frekari fróðleikur er á vefnum Mycologue Publications. Flokkunarkerfi asksveppa batnar sífellt og tekur þá breytingum og má nálgast nýjustu tillögur að flokkun þeirra í veftímaritinu Myconet.

Kólfsveppir draga nafn sitt af kylfulaga frumu þar sem einlitna gró myndast með rýriskiptingu. Gróin eru oftast fjögur talsins og sitja þau hvert á sinni totu.

Sveppþræðir margra kólfsveppa eru með svokallaðar sylgjur (e. clamp connections) við þverveggina. Veggirnir eru lagskiptir og hafa sérstakan umbúnað um gatið sem er í þeim miðjum.

Fylking kólfsveppa skiptist í þrjá flokka:

Kólfsveppir (Basidiomycetes) – um 20.400 tegundir þekktar, um 540 tegundir á Íslandi

Í flokki kólfsveppa eru sveppir sem segja má að séu hinir dæmigerðu sveppir. Hattsveppir, belgsveppir, hlaupsveppir, vandsveppir, borusveppir, broddsveppir, sældusveppir og skinnsveppir eru allt nöfn sem dregin eru af gerð aldina kólfsveppa og því hvernig kólfbeðurinn er í laginu. Sveppirnir mynda það stór aldin utan um kólfbeð sinn að þau sjást með berum augum og kallast þeir því stórsveppir (macrofungi). Eftir því sem fleiri tegundir kólfsveppa eru rannsakaðar með aðferðum sameindalíffræðinnar hefur þekking á þróun þeirra og skyldleika aukist. Niðurstöðurnar eru notaðar við að raða þeim í flokkunarkerfi en töluverð umröðun hefur orðið í kerfinu upp á síðustu árum.

Flokknum hefur lengi verið skipt í tvær syrpur, sú fyrri einkennist af kólfum sem skipt er með veggjum en sú síðari af óskiptum kólfum, að minnsta kosti í byrjun:

  • Hlaupsveppir (Tremellomycetidae)
  • Hattsveppir (Agaricomycetidae) – sá hópur sveppa sem flestir eiga við þegar þeir tala um sveppi almennt, til dæmis matkempingur (Agaricus bisporus) sem ræktaður er til manneldis og kúalubbi (Leccinum scabrum)

Ryðsveppir (Urediniomycetes) – um 8100 tegundir þekktar, um 75 tegundir á Íslandi

Ryðsveppir eru sníklar á fræplöntum og byrkningum og eru einkum áberandi á trjám, runnum og skrautjurtum. Þeir eru hýsilplöntunum algerlega háðir. Ryðsveppir eru afar smáir og mynda ekki aldin og teljast þannig til smásveppa (microfungi). Sveppþræðir þeirra vaxa í vefjum hýsilplöntunnar og mynda gró á yfirborði hennar, vanalega á blöðum, stönglum eða blómum. Gróin koma fram sem púðurkenndir og ryðlitaðir blettir á yfirborði hýsilplöntunnar sem smitar af. Blöðin gulna oft fyrir tímann af þessum sökum. Stundum breyta sveppirnir vaxtarlagi plöntunnar.

Sótsveppir (Ustilaginomycetes) – um 1500 tegundir þekktar, um 40 tegundir á Íslandi

Sótsveppir haga sér á svipaðan hátt og ryðsveppir, eru sníklar á fræplöntum og byrkningum og eru þeim háðir. Þeir eru smáir og mynda ekki aldin og teljast til smásveppa (microfungi). Sveppþræðirnir vaxa í vefjum hýsilplöntunnar og mynda gró á yfirborði hennar, vanalega á blöðum, stönglum eða blómum. Gróin koma fram sem blettir eða flekkir á yfirborði hýsilplöntunnar og minna á sót.

Einlitna frumur í lífsferli sótsveppa geta fjölgað sér og lifa rotlífi en tvíkjarnasveppþræðir þeirra afla sér eingöngu næringar með sníkjulífi. Sveppþræðirnir hafa sérstök frymiskorn sem hafa þá eiginleika að þegar innihald þeirra kemur við frumuhimnu hýsilsins breytist hún og snertipunktar myndast. Veggir þráðanna hafa tiltölulega mikið af glúkósa en engan viðarsykur (xýlósa) og umbúnaður gata þverveggjanna er þriggja laga hetta eða plata ólíkt því sem gerist hjá ryðsveppum eða flokki kólfsveppa.

Sótsveppir skiptist í þrjár syrpur:

  • Entorrhizomycetidae – Engin tegund hefur fundist á Íslandi enn sem komið er
  • Lyngrauðusyrpa –11 tegundir á Íslandi
  • Sótsveppasyrpa – 26 tegundir á Íslandi

Upplýsingar um sótsveppi og hýsla þeirra á Íslandi fram til ársins 2002 er að finna í ritinu Íslenskt sveppatal I: smásveppir (pdf).

Nánari fróðleikur kólfsveppi er á vefnum Mycologue Publications

Vankynssveppir eru sveppir sem fjölga sér kynlaust. Þeir eru flestir asksveppir og er smám saman verið að finna þeim stað í kerfinu innan um ættingja sem æxlast með kynæxlun. Sumir vankynssveppir hafa þróast í þá átt að hætta algerlega við kynæxlun meðan aðrir bregða stöku sinnum fyrir sig genablöndun með kynæxlun.

Margir asksveppir fjölga sér kynlaust á einhverju stigi lífsferils síns því það er tiltölulega einföld leið til að dreifa sér þegar aðstæður leyfa. Til að lifa af vetur eða þurrkatímabil nota þeir síðan kynæxlun og mynda askgró.

Gera má ráð fyrir að mikið sé af óskráðum tegundum asksveppa og vankynssveppa hérlendis. Eins eru upplýsingar um útbreiðslu þeirra tegunda sem þekktar eru oft af skornum skammti. Í  ritinu Íslenskt sveppatal I: smásveppir (pdf) eru upplýsingar um íslenska smásveppi fram til ársins 2002, en síðan þá hafa fundist heimildir, ýmist nýjar eða gamlar, um marga smásveppi til viðbótar.

Nánari fróðleikur um vankynssveppi er á vefnum Mycologue Publications.

Heilræði fyrir sveppaunnendur

Það færist sífellt í vöxt að fólk tínir sveppi sér til matar. Best er að fara í þurru veðri nokkrum dögum eftir regn, vera vel búin til útivistar, með körfu undir sveppina og lítinn beittan hníf. Í þjóðskógum og flestum reitum skógræktarfélaga er öllum heimilt að tína sveppi en ef landið er í einkaeign þarf að fá leyfi. Mikilvægt er að ganga ávallt vel um og skemma hvorki trjáplöntur né gróður. Safna skal þéttum, ungum og heilbrigðum sveppum en láta of gamla og of unga sveppi standa áfram á sínum stað. Óþekkta sveppi, sem gætu verið eitraðir, skal ekki setja beint í matsveppakörfuna heldur fyrst í bréfpoka eða box.

Hafið ávallt í huga:

  • Borðið aðeins þær tegundir sem þið þekkið og eru góðir matsveppir.
  • Tínið unga og ferska sveppi og matreiðið þá áður en þeir skemmast.
  • Geymið svepparétti ekki lengur en einn dag í kæli því sveppir endast illa og skemmast fljótt.
  • Ekki er gott að sveppir séu yfir þriðjungur af magni matar í svepparéttum. Sveppir geta verið tormeltir.
  • Borðið alls ekki sveppi sem einhver vafi er á að séu ætir – við eigum bara eitt líf.
  • Byrjið varlega á nýjum tegundum og borðið lítið í fyrstu skiptin. Sumir hafa ofnæmi fyrir góðum matsveppum.

Myglusveppir