Ferskvatn

Ísland er óvenju vatnsríkt, bæði að yfirborðsvatni og grunnvatni. Úrkoma er mikil og uppgufun af landi er fremur lítil svo megnið af vatni sem fellur er miðlað til sjávar með vatnsföllum eða grunnvatnsstraumum. Jarðfræði og gerð berggrunns á stóran þátt í að móta vatnafar hér á landi. Miðlunarhættir vatns eru mismunandi eftir landshlutum, en þeir mótast meðal annars af lekt jarðlaga, það er þeim eiginleika jarðlaga að veita vatni. Þannig rennur úrkoma að mestu leyti af yfirborðinu þar sem jarðlögin eru þéttust í elsta berggrunninum. Í nútímahraunum hripar úrkoman hins vegar niður og nær ekkert afrennsli er á yfirborði, en vatnsmiklar lindir koma fram á hraunjöðrum.

Hér á landi eru vistgerðir í fersku og ísöltu yfirborðsvatni flokkaðar og skilgreindar, bæði í straum- og stöðuvötnum. Flokkunin byggist einkum á Eunis-flokkunarkerfinu, sem skilgreinir undirflokka straum- og stöðuvatna. Mismunandi er hversu vel skilgreiningarnar falla að íslenskum aðstæðum en reynt er að finna öllum vötnum stað innan kerfisins. Í þeim tilvikum sem það er ekki hægt er gerð tillaga að nýjum flokki.

Flokkun vistgerða í stöðuvötnum byggist einkum á tegundasamsetningu og útbreiðslu vatnagróðurs, ásamt næringarefnaástandi vatnanna. Vötnin eru flokkuð eftir því hversu auðug þau eru af fosfór (P), nitri (N) og blaðgrænu. Fleiri þættir hafa áhrif, til dæmis dýpi, hæð yfir sjávarmáli, gróðurþekja á vatnasviðinu, botngerð, tengsl við jökla og selta. Langflest stöðuvötn á Íslandi eru næringarefnasnauð, líkt og önnur vötn á norðlægum slóðum. Magn næringarefna, ásamt birtu og hitastigi, stjórnar frumframleiðni í vötnum og skiptir sköpum fyrir lífríki þeirra. Hér á landi er sýrustig (pH) vatns nær undantekningarlaust um og yfir pH 7 sem er nokkuð hærra en þekkist víða erlendis. Þetta má fyrst og fremst rekja til basísks berggrunns landsins. Alls hafa verið greindar níu mismunandi vistgerðir í stöðuvötnum hér á landi.

Vistgerðir í straumvatni eru meðal annars flokkaðar á grundvelli rennslishátta og straumgerðar en þetta tvennt getur haft áhrif á vatnagróður sem finnst í vatninu. Hefðbundin íslensk flokkun straumvatns í lindár, dragár og jökulár lýsir að miklu leiti rennslisháttum. Straumvötn eru í megindráttum flokkuð eftir straumlagi samkvæmt Eunis-flokkunarkerfinu, þ.e. iðustreymi og lagstreymi auk þess sem einn flokkur lýsir heitum og köldum uppsprettum. Straumvötn á Íslandi hafa verið flokkuð í átta mismunandi vistgerðir og einkennast þau flest af iðustreymi.

Staðreyndasíður

Á staðreyndasíðum er gefin stutt en greinargóð lýsing á einkennum og einkennandi lífríki vistgerðar. Tegundalistar sem fylgja hverri vistgerð byggjast á vettvangsathugunum auk upplýsinga úr birtum heimildum. Útbreiðsla ferskvatnsvistgerða er sýnd á 10×10 km reitakorti en ítarlegri kort er að finna í kortasjá.

V1 Stöðuvötn EUNIS-flokkun
V1.1 Flatlendisvötn Profundal: C1.13 Rooted floating ­vegetation of oligotrophic waterbodies; 
Littoral zone: C3.2 Water-fringing reedbeds and tall helophytes other than canes
V1.2 Laukavötn Profundal: C1.12 Rooted submerged vegetation of oligotrophic waterbodies; 
Littoral zone: C3.4 Species-poor beds of low-growing water-fringing or amphibious vegetation
V1.3 Tegundarík kransþörungavötn Nýr flokkur, tillaga. C1.18 Species rich Charales lakes;
Littoral zone: C3.64 Exposed unvegetated freshwater lake sands and shingles
V1.4 Kransþörungavötn á hálendi Profundal: C1.142 Nitella carpets;
Littoral zone: C3.64 Exposed unvegetated freshwater lake sands and shingles
V1.5 Gróðurlítil hálendisvötn Nýr flokkur, tillaga. C1.19 Iceland­ic sparsely vegetated highland lakes; 
Littoral zone: C3.64 Exposed unvegetated freshwater lake sands and shingles
V1.6 Hálendistjarnir Nýr flokkur, tillaga. C1.8 Icelandic highland ponds
V1.7 Jökulvötn Nýr flokkur, tillaga. C1.9 Icelandic glacier-fed lakes; 
Littoral zone: C3.64  Exposed unvege­tated freshwater lake sands and shingles
V1.8 Strandvötn Nýr flokkur, tillaga. C1.A Icelandic coastal lakes;
Littoral zone: C3.2 Water-fringing reedbeds and tall helophytes other than canes
V1.9 Súr vötn Nýr flokkur, tillaga. C1.B Icelandic acidic lakes;
L
ittoral zone: C3.64 Exposed unvegetated freshwater lake sands and shingles
V2 Straumvötn EUNIS-flokkun
V2.1 Kaldar lindir C2.111 Fennoscandian mineral-rich springs and springfens
V2.2 Jarðhitalækir C2.17 Thermal spring brooks
V2.3 Ár á yngri berggrunni Nýr flokkur, tillaga. C2.29 Icelandic spring-fed rivers
V2.4 Ár á eldri berggrunni án votlendisáhrifa C2.2 Permanent non-tidal, fast, turbulent water­courses
V2.5 Ár á eldri berggrunni með votlendisáhrifum C2.25 Acid oligotrophic vegetation of fast-flowing streams
V2.6 Æðplöntustraumvötn Nýr flokkur, tillaga. C2.35 Oligotrophic vegetation of slow-flowing rivers
V2.7 Ármosastraumvötn Nýr flokkur, tillaga. C2.36 Icelandic Fontinalis antipyretica rivers
V2.8 Jökulár Nýr flokkur, tillaga. C2.2B Icelandic glacier-fed ­rivers