Frjókorn í lofti í júní

Tekið hefur verið saman yfirlit frjómælinga á Akureyri og í Garðabæ í júní. Norðan heiða var heildarfjöldi frjókorna vel yfir meðallagi en því var öfugt farið á höfuðborgarsvæðinu þar sem fjöldi frjókorna var vel undir meðallagi.

Á Akureyri voru frjókorn samfellt í lofti allan júnímánuð og var heildarfrjótalan 1.078 frjó/m3. Það er talsvert meira en í meðalári (721 frjó/m3). Langmest var um um birkifrjó (476 frjó/m3) og furufrjó (357 frjó/m3) en aðrar frjótegundir sem mældust að einhverju ráði voru grasfrjó (54 frjó/m3), frjó rósaættar (49 frjó/m3), starafrjó (36 frjó/m3), víðifrjó (29 frjó/m3) og yllifrjó (25 frjó/m3). Alls greindust 17 frjógerðir.

Í Garðabæ voru frjókorn einnig samfellt í lofti allan mánuðinn. Heildarfjöldi þeirra var 711 frjó/m3 sem er nokkuð undir meðallagi (1.027 frjó/m3) enda var mánuðurinn fremur úrkomusamur á höfuðborgarsvæðinu. Mest mældist af grasfrjóum (367 frjó/m3) og furufrjóum (146 frjó/m3) en aðrar frjógerðir voru helst súrufrjó (42 frjó/m3), frjó rósaættar (16 frjó/m3), lúpínufrjó (14 frjó/m3), yllifrjó (13 frjó/m3) og birkifrjó (13 frjó/m3). Aldrei hafa mælst eins fá birkifrjó í Garðabæ í júní og í ár og virðast þau flest hafa fallið í maí. Alls greindist 21 frjógerð.

Búast má við áframhaldandi grasfrjóum í lofti það sem eftir lifir júlí og í ágúst, sjá frjókornaspá.

Fréttatilkynning um frjómælingar júní 2022 (pdf)

Nánar um frjómælingar