Válistar

Válistar eru skrár yfir lífverutegundir sem eiga undir högg að sækja eða eru taldar vera í útrýmingarhættu í tilteknu landi eða svæði. Við gerð válista er stuðst við viðmið Alþjóðanáttúruverndarsambandsins, IUCN, en það gerir kröfur um nokkuð nákvæma vitneskju um útbreiðslu tegunda, fjölda einstaklinga og stofnstærðarbreytingar.

Í válistum er verndarstaða tegunda skráð í nokkra mismunandi hættuflokka eftir því hve alvarleg ógnin er sem þær standa frammi fyrir. Jafnvel algengar tegundir geta lent á válista ef þeim hefur fækkað mikið á skömmum tíma eða talin er hætta á þeim fækki mikið á komandi árum.

Á alþjóðavettvangi ganga válistar undir nafninu „rauðir listar“ (Red Lists). Þeir eru mikilvæg forsenda náttúruverndar og hafa flestar þjóðir sem Íslendingar bera sig saman við útbúið slíka lista fyrir algengustu hópa lífvera.

Alþjóðanáttúruverndarsambandið viðheldur válistum yfir plöntur og dýr sem eiga undir högg að sækja eða eru í útrýmingarhættu á heimsvísu (The IUCN Red List of Threatened Species). Árið 2019 voru yfir 27.000 tegundir lífvera skráðar á heimsválista IUCN.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur saman válista yfir lífríki landsins. Gefnir hafa verið út Válistar plantnafugla og spendýra.