Fleskgæra (Dermestes lardarius)

Útbreiðsla

Um heim allan. Talin upprunnin í Evrópu.

Ísland: Reykjavík, Eyjafjörður, Fellabær.

Lífshættir

Fleskgæra er hvarvetna háð sambýli við menn, heldur sig í heimahúsum jafnt sem hjá fyrirtækjum sem framleiða eða geyma kjötvörur. Hún er algjör kjötæta, kjöt í víðustu merkingu. Þurrkað kjöt, skinn, bein, horn, hár og skordýrasöfn eru í hættu þar sem fleskgæra hefur komið sér fyrir og eru bjöllurnar mikil átvögl jafnt á lirfu- og fullorðinsstigi. Þær geta bjargað sér á plöntufæðu en þó ekki lokið þroskaferli án þess að komast í kjötmeti. Kvendýr þurfa að nærast vel áður en þau verpa. Bjöllurnar eru mjög næmar á lykt af dauðum dýrum eða gömlu kjöti og fljótar að koma sér fljúgandi í matarkistuna. Til að geta flogið þurfta bjöllurnar að ná í bolinn nokkrum hita eða 22°C. Ef þær ekki komast í hentuga matvæli til að verpa í geta þær komið þær eggjum sínum fyrir vel vörðum í sprungum og glufum þar sem þau bíða tækifæris.

Fullorðnar bjöllur eru langlífar og lifa auðveldlega í þrjá mánuði. Þær verpa allt sumarið frá vori til hausts en sennilega er bara um að ræða eina kynslóð á ári nema við bestu hugsanleg lífsskilyrði. Þær makast þegar hiti hefur náð 16-18°C. Viðkoman er mikil því hvert kvendýr verpir á bilinu 100-800 eggjum sem það dreifir sem víðast í nokkurra eggja klösum. Eggin þroskast á viku við 20°C en á skemmri tíma við hærra hitastig.

Þroskatími lirfa fer mjög eftir hitastigi, 150 dagar við 15°C, 70 dagar við 20°C, 40 dagar við 25°C svo dæmi séu gefin. Ef hiti fer niður fyrir 15°C stöðvast þroski. Bjöllurnar lifa af nokkurt frost, til dæmis geta þær haft af tvo mánuði í -7°C. Þegar lirfur eru fullvaxnar naga þær sig inn í fast efni eins og einangrun, tréverk og feyskinn múr, jafnvel nokkra sentimetra. Inni í göngunum verða síðustu hamskiptin, lirfan púpar sig og dvelur á púpustigi eins lengi og verða vill.

Almennt

Fleskgæra á stopula sögu á Íslandi enda lífsskilyrðin sem í boði eru ekki svo heppileg. Áður fyrr var hún algengt vandamáli í matarbúrum nágrannaþjóða en hún leið fyrir þegar kæliskápurinn kom til sögu og fór þá hnignandi á heimilum. Fleskgæra hefur ekki verið talin búföst hér á landi til þessa. Til er heimild frá 18. öld um tegundina í verslunarhúsi á Akureyri. Þá fannst hún á bæ í Svarfaðardal árið 1937. Síðan segir ekki af henni fyrr en af heimili í Reykjavík árið1995 en íbúi þar var þá nýkominn heim frá Grikklandi. Nú ber svo til að fleskgæra hefur lagt undir sig gamalt fiskvinnsluhús á Austurlandi, komið sér þar vel fyrir og orðin til vansa.

Ef lífshættir eru skoðaðir má glögglega sjá að fleskgæra getur orðið afleitur skaðvaldur, langlífi bjallnanna, mikil framleiðsla eggja og snör viðbrögð ef matarkista opnast.

Fleskgæra (8 mm) er stór gærubjalla eins og aðrar af hennar ættkvísl sem hér hafa fundist, þ.e. nágæra (Dermestes peruvianus) og skreiðargæra (Dermestes maculatus). Allar eru þær sömu gerðar en mismunandi litar. Fleskgæran er aflöng jafnhliða og ávöl í báða enda. Hún er nánast svört á lit með breitt gráleitt þverbelti yfir framhluta skjaldvængja, á hvorum skjaldvæng með þrjá svarta punkta í gráa fletinum.

Útbreiðslukort

Heimildir

Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.

Geir Gígja 1944. Meindýr í húsum og gróðri og varnir gegn þeim. Prentsmiðjan Hólar hf, Reykjavík. 235 bls.

Larsson, S.G. & Geir Gígja 1959. Coleoptera 1. Synopsis. Zoology of Iceland III, Part 46a. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 218 bls.

Höfundur

Erling Ólafsson 11. maí 2017.

Biota

Tegund (Species)
Fleskgæra (Dermestes lardarius)