Búsvæði tjarnaklukku friðlýst

15.02.2011

Blað hefur verið brotið í sögu friðlýsinga á Íslandi. Í fyrsta skipti hefur búsvæði smádýrs verið tekið frá og verndað. Tjarnaklukka, smávaxinn ættingi brunnklukkunnar, sem á sér þekkt athvarf á aðeins einum stað á landinu varð heiðursins aðnjótandi og sömuleiðis Djúpavogshreppur og landeigendur þar austur frá sem tóku tillögunni afar vel og veittu henni brautargengi.

Tjarnaklukka. ©EÓ

Í tillögum Náttúrufræðistofnunar Íslands vegna náttúruverndaráætlunar 2009–2013 (pdf) var í fyrsta skipti lagt til að vernda búsvæði smádýrategunda hér á landi. Þrjár tegundir voru tilgreindar í þessu sambandi, tjarnaklukka á Hálsum við Djúpavog, tröllasmiður í Hornafirði og brekkubobbi í Vík í Mýrdal. Þann 10. febrúar síðastliðinn var fyrsta skrefið stigið á þessum vettvangi, er umhverfisráðherra, Svandís Svavarsdóttir, og Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps, undirrituðu skjöl til staðfestingar á friðun tjarnaklukkunnar þar austur frá (frétt á vef Umhverfisráðuneytis).

Það var vel við hæfi að Djúpivogur riði á vaðið í þessum efnum, því fá sveitarfélög á landinu hafa eins metnaðarfulla stefnu í umhverfis- og friðlýsingamálum. Margar áhugaverðar hugmyndir eru uppi þar í sveit sem verið er að vinna brautargengi.

Tjarnaklukkan finnst í allnokkrum mæli í tjörnum á svokölluðum Hálsum skammt vestur af Djúpavogi, þar sem hún svamlar um ásamt ættingjum sínum brunnklukku, fjallaklukku og lækjaklukku. Til þessa hefur hún ekki fundist annars staðar á landinu og er það athyglisvert. Reyndar er tjarnaklukka þarna á norðurmörkum útbreiðslu sinnar og er staðurinn auk þess vestasti fundarstaðurinn í heiminum því tegundin finnst ekki vestan Atlantsála.

Tjarnaklukka er um margt lík brunnklukku í útliti, enda sömu ættkvíslar (Agabus). Hún er þó mun minni og skelin kúptari. Sjá nánar um tjarnaklukku á pödduvefnum.


Gauti Jóhannesson, sveitarstjóri Djúpavogshrepps og Svandís Svavarsdóttir, umhverfisráðherra, staðfesta friðlýsingu búsvæðis tjarnaklukku 10. febrúar 2011 í Löngubúð á Djúpavogi. Ljósm. Erling Ólafsson.