Hengistararflóavist

L8.10

Eunis-flokkun

Nýr flokkur, tillaga. D2.2933 Icelandic Carex rari­flora alpine fens.

Hengistararflóavist
Mynd: Borgþór Magnússon

Hengistararflóavist í Þjórsárverum þar sem skiptast á lágir mosarimar og grunnar flóalægðir. Gróðursnið V03-4. – Carex rariflora alpine fen in southern highlands.

Hengistararflóavist
Mynd: Sigurður H. Magnússon

Hengistararflóavist. Mosaríkur flói með tjörnum í Búrfellsflóa á Vesturöræfum. Hengistör er ríkjandi en aðrar þekjumiklar æðplöntur eru grávíðir, mýrastör og hálmgresi. Gróðursnið KMM24. – Carex rariflora alpine fen in eastern highlands.

Lýsing

Algróið, flatt eða hallalítið, mjög mosaríkt votlendi með flóum, tjörnum, mýrablettum og rimum til heiða og fjalla. Við tjarnir og í lægðum er flóagróður, en mólendisgróður á rimum. Gróður fremur lágvaxinn og gróskulítill nema þar sem tjarnastör vex. Mosar eru ríkjandi í þekju og fjölbreytni þeirra mikil. Lítið er af fléttum.

Plöntur

Æðplöntuflóra er frekar rýr, mikið er af mosum en miðlungi af fléttum. Ríkjandi æðplöntur eru hengi­stör (Carex rariflora), mýrastör (C. nigra), klófífa (Eriophorum angustifolium), fjallavíðir (Salix arctica) og hálmgresi (Calamagrostis stricta). Algengustu mosar eru móasigð (Sanionia uncinata), roða­kló (Sarmentypnum sarmentosum), mýrahnúði (Oncophorus wahlenbergii), mýrakrækja (Scorpidium revolvens) og bleytuburi (Sphagnum teres).

Jarðvegur

Fremur þykk lífræn jörð, kolefnisinnihald er í meðal­lagi en sýrustig fremur lágt.

Fuglar

Fuglalíf er mjög fjölbreytt, mest ber á heiðlóu (Pluvialis apricaria), lóuþræl (Calidris alpina) og þúfutittlingi (Anthus pratensis). Andfuglar eru einnig mjög áberandi, einkum álft (Cygnus cygnus) og heiðagæs (Anser barachyrhynchus) en einnig ýmsar andategundir.

Líkar vistgerðir

Rústamýravist og sandmýravist.

Útbreiðsla

Finnst á votlendissvæðum til heiða og fjalla, einkum í Þjórsárverum, Guðlaugstungum, Vesturöræfum og Brúardölum og út til stranda norðaustanlands.

Verndargildi

Hátt.

Hengistararflóavist

Hengistararflóavist er allútbreidd, en hún finnst í 29% landsreita. Flatarmál hennar reiknast um 400 km2, óvissa nokkur, óglögg skil við líkar vistgerðir. – The habitat type is rather common in Iceland  and is found within 29% of all grid squares. Its total area is estimated 400 km2.

Gróðurþekja, tegundafjöldi, raki, ríkjandi tegundir og fleiri tölulegar upplýsingar í hengistararflóavist

Gróðurþekja æðplantna, mosa og fléttna. Sýnd eru meðaltöl fyrir heildarþekju og þekju ±staðalskekkja. Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn allra vistgerða á landi. – Average total % cover of all plant groups (Heild), vascular plants (Æðplöntur), bryophytes (Mosar) and lichens (Fléttur), shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Tegundafjöldi á sniðum. Sýnd eru meðaltöl fyrir fjölda tegunda æðplanta, mosa og fléttna ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Grænar súlur sýna spönn fyrir allar vistgerðir. – Average species richness of vascular plants, bryophytes and lichens, shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Raki í jarðvegi. Sýnd er tíðni rakaflokka; forblautt, blautt, deigt og þurrt. Innan sviga er fjöldi mælinga. – Soil moisture classes %, n within brackets; classes are Very wet (Forblautt), Wet (Blautt), Moist (Deigt) and Dry (Þurrt).

Ríkjandi tegundir og tegundahópar í vistgerðinni. Sýnd er þekja og röð. – Order and % cover of dominant species.

Ýmsar niðurstöður: Gróðurhæð (Gh); Jarðvegsþykkt (Jþ); Kolefni í jarðvegi (C%); Sýrustig í jarðvegi (pH); Halli lands (H); Grýtniþekja (Gr). Sýnd eru meðaltöl ±staðalskekkja (lóðrétt strik). Innan sviga er fjöldi mælinga. Skyggðar súlur sýna spönn viðkomandi breytu fyrir allar vistgerðir. – Various results: Average vegetation height (Gh) and soil depth (Jþ), soil carbon (C%) and pH, land slope (H) and surface rocks (Gr) shown with lines and numbers ± s.e., n within brackets; bars indicate range for all habitat types.

Opna í kortasjá