Rauðar humlur - tvær tegundir!


Loðsveifa (Eristalis intricaria) hefur þróað með sér vörn með því að líkjast rauðum humlum. ©EÓ Rauðhumla (Bombus hypnorum) með hvíthærðan afturenda. Hafnarfjörður 22. maí 2010. ©EÓ Ryðhumla (Bombus pascuorum) með ryðrauðan afturenda. Hveragerði 17. maí 2010. ©EÓ

Rauðar humlur og loðsveifa
Í kjölfar fyrrnefndrar fréttar (19. maí) bárust Náttúrufræðistofnun fjöldamargar tilkynningar um rauðhumlur (Bombus hypnorum) eða meintar rauðhumlur víða að af landinu. Reyndar hafa flestar tilkynningarnar átt við um alls óskylda tegund af ættbálki tvívængja, þ.e. sveifflugu sem kallast loðsveifa (Eristalis intricaria). Margar sveifflugur líkjast geitungum hvað lit varðar en slíku fylgir ágæt vörn gegn rándýrum. Loðsveifa líkist hins vegar rauðum humlutegundum. Hún er loðin og liturinn áþekkur humlunum, er þó mun minni og þekkist m.a. á því að hún stoppar í loftinu. Loðsveifur eru algengar í görðum okkar og lukkast það jafnt að gabba rándýr sem mannfólk.

Ryðhumla uppgötvast
Fréttin af rauðhumlunni vakti einnig athygli erlendis og ábending kom frá breskum býflugnafræðingum um að af myndum að dæma gæti verið um tvær tegundir að ræða. Við nánari skoðun kom í ljós að sú var raunin. Humla sem mynduð var og safnað í Hveragerði 17. maí síðastliðinn skar sig frá öðrum þar sem hún var með ryðrauðan afturenda en ekki hvítan eins og rauðhumlurnar. Í ljós kom að um tegundina Bombus pascuorum var að ræða og hefur hún verið nefnd ryðhumla á íslensku. Algengast er að bolur ryðhumlu sé nær allur ryðrauður en afturbolur þó heldur dekkri framan til en aftast og sjaldnast með greinilegum litaskilum. Tegundin er þó breytileg og í Skandinavíu finnast afbrigði áþekk því íslenska, þ.e. með alsvartan framhluta afturbols sem er greinilega aðskilinn frá ryðrauðum afturenda.

Eftirfylgnin varð flóknari
Þessi staða kom eftirfylgninni með rauðu humlunum nýju í uppnám því ekki lá lengur ljóst fyrir hvorri tegundinni þær flugur tilheyrðu sem tilkynnt hafði verið um og þóttu áreiðanlegar humlur. Tilkynningar frá Hveragerði bentu til að töluvert væri um rauðar humlur í görðum þar. Eintök fylgdu ekki tilkynningum þaðan og ekki heldur með sannfærandi lýsingum á rauðum humlum í Garðabæ og á Selfossi. Hins vegar bárust Náttúrufræðistofnun eintök af rauðhumlu bæði frá Hafnarfirði og Keflavík.

Þann 27. maí var tilkynnt um rauðar humlur í Kjarnaskógi sunnan Akureyrar sem ástæða þótti til að taka alvarlega. Starfsmaður Náttúrufræðistofnunar á Akureyri brá sér á staðinn og gómaði tvær af allmörgum slíkum sem sóttu í nýútsprungin blóm blátopps (Lonicera caerulea). Um ryðhumlur reyndist vera að ræða.

Þann 28. maí brá skordýrafræðingur stofnunarinnar sér til Hveragerðis og fann þar ryðhumlur á þrem stöðum þar sem þær sóttu í nýblómgaða runna af ættkvíslinni Lonicera, m.a. í Gróðrarstöðinni Borg. Að sögn eigenda stöðvarinnar hafði verið töluvert um þær undanfarið og hefði þeirra orðið vart um nokkurra ára skeið. Úr því að ryðhumlur hafa komið sér fyrir bæði í Hveragerði og á Akureyri má reikna með að þær hafi náð fótfestu víðar á landsbyggðinni.

Staðfestar rauðhumlur (P. hypnorum) eru nú þekktar frá Keflavík, Hafnarfirði og Reykjavík og ryðhumlur (P. pascuorum) frá Hveragerði og Akureyri. Talið var að svartar humlur frá Mosfellsdal í fyrra (2009) hafi verið afbrigðilegar rauðhumlur en fram hafa komið efasemdir um að það standist. Eintök eru varðveitt á NÍ og þarfnast þau nánari skoðunar við hjá sérfræðingi áður en fullyrt verður um hvaða tegund þau tilheyra.

Hvatning
Í fréttaflutningi undanfarið hefur fólk verið hvatt til að tilkynna um rauðhumlur til Náttúrufræðistofnunar. Þessi nýja staða gerir það að verkum að tilkynningar einar sér duga ekki lengur. Því verður nú að hvetja fólk til að senda eintök til stofnunarinnar því það þarf að kanna fleiri einkenni en litinn á afturenda til að staðfesta tegundagreiningar.

Sjá nánari umfjöllun um loðsveifu, rauðhumlu og ryðhumlu.