Hátt í 500 pöddur á pödduvefnum

Undanfarið hefur pödduvefur Náttúrufræðistofnunar Íslands verið yfirfarinn að nokkru leyti og uppfærður eftir að hafa verið í biðstöðu á meðan vefur stofnunarinnar var í endurgerð. Áhersla hefur verið lögð á að koma nýju efni í birtingu og samhliða nokkurt eldra efni lagfært. Margar ljósmyndir hafa verið endurunnar eða myndum skipt út.  Á pödduvefnum er nú að finna upplýsingar um 476 tegundir landsmádýra auk fáeinna vatnadýra.

Pödduvefurinn var í biðstöðu á meðan unnið var að uppfærslu á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands. Á meðan hléið stóð yfir var þó áfram unnið að ritun nýs efnis. Undanfarna mánuði hefur 80 nýjum tegundum verið bætt við gagnagrunninn og eru nú samtals 476 tegundir komnar í birtingu, jafnt landlægar sem erlendir slæðingar til landsins. Einnig hefur verið unnið að því að yfirfara og uppfæra eldri upplýsingar í gagnagrunninum sem liggur að baki pödduvefnum, farið yfir skráningar, bætt við þær og lagfært eftir þörfum. Auk þess hafa margar myndanna verið endurunnar eða þeim skipt út. Hvað endurskoðun á eldra efni varðar er enn langt að landi. Tilgangurinn er að birta sem nýjastar og réttastar upplýsingar. 

Stysta leiðin inn á pödduvefinn er um hnappinn „Pöddur“ á forsíðu vefs Náttúrufræðistofnunar Íslands, ni.is. Þar undir er að finna hnappinn „Skoða flokkunarkerfi og leita að pöddum“. Ef smellt er á hnappinn opnast leitarsíða þar sem hægt er að leita af tegundum eftir nokkrum leiðum. Í fyrsta lagi er hægt að slá inn tegundarheiti í leitarglugga efst á síðunni og komast þannig beint inn á valda tegund fram hjá flokkunarkerfi vinstra megin á síðunni. Í öðru lagi er hægt að leita að tegundum í flokkunarkerfinu með því að sía eftir fylkingu (phylum), flokki (class) eða ætt (family) og birtast þá allar færslur sem eiga heima undir viðkomandi þrepi kerfisins. Þegar síun nær til ættar birtast tegundir hennar á vefnum með myndum og grunnupplýsingum. Þá er neðan við flokkunarkerfið hægt að sía út tegundir eftir því hvar eða hvernig þær finnast: tegundir sem finnast í náttúrunni, görðum eða húsum, slæðingar með varningi, flækingar með vindum og tegundir sem hafa numið landið á síðustu áratugum. Sumar tegundir flokkast undir fleiri en einn flokk. Þess skal getið að síun í flokkunarkerfi smádýranna er ekki nógu augljós ennþá. Lagfæringa er þörf til að gera síun virkari og augljósari. Flokkunarkerfi smádýra er flókið fyrirbæri. 

Hverri tegund fylgir kort sem sýnir fundarstaði hennar á landinu. Hafa skal í huga að punktar á korti byggjast alfarið á skráðum eintökum í safni Náttúrufræðistofnunar og gefa því aðeins til kynna vísbendingu um útbreiðslumynstur. Sú regla er viðhöfð að punktur skili sér ekki á kort nema eintak honum til staðfestingar sé varðveitt í safni. Því kann að koma fram misræmi á milli korts og texta í pistli þar sem túlkun er opnari.

Pödduvefurinn verður áfram í markvissri uppbyggingu með innsetningu nýrra tegunda og endurskoðun eldri texta. Einnig uppfærast fundarstaðakortin eftir því sem eintök bætast í safn og gagnagrunn stofnunarinnar frá nýjum fundarstöðum. Rannsóknir á smádýrum eiga sér engin endamörk.