Rykmýsætt (Chironomidae)

In General

Rykmýsætt er fjölliðuð og finnst um heim allan.  Gert er ráð fyrir að tegundir séu yfir 10.000 og er það örugglega ekki ofætlað. Í Evrópu eru skráðar um 1.265 tegundir.

Stærðarbreytileiki er heilmikill, allt frá agnarsmáum upp í um 13 mm á lengd. Flestar tegundir eru fáeinir mm. Sköpulag er áþekkt hjá flestum tegundum. Kynin er uólík, karldýr með áberandi fjaðraða fálmara en kvendýr ekki, og hafa lengri og grennri bol en kvendýrin. Vængir eru frekar mjóir jafnbreiðir, oftast glærir, stundum hærðir, stundum flekkóttir. Í þessum tegundaríka hópi er fátt um aðgengileg greiningareinkenni til að aðgreina tegundir. Algengast er að kanna smáatriði í gerð kynfæra karldýra en til þess þarf sérfræðiþekkingu.  Kvendýr eru oft torgreindari en karldýr, jafnvel ógreinanleg til tegunda. Því er enn margt á huldu í rykmýsfræðum.

Almennt alast lirfur upp í vatni, jafnt kyrrstæðu sem rennandi, jafnvel í sjó, einnig í blautum leir eða vel rökum jarðvegi. Þær nærst á þörungum, roti og jafnvel á ránum. Fullorðnu dýrin klekjast upp úr vatnsflötum , ná strax flugi og fara óðara að leggja drög að nýjum kynslóðum. Karlflugur mynda oft þétta stróka af dansandi flugum sem lokka til sín kvenflugur. Flugurnar nærast ekki og lifa varla lengur en til að makast og verpa.

Rykmý er afar mikilvægt í vistkerfum vatna. Fjöldinn er gífurlegur og eru jafnt lirfur sem fullorðnar mýflugur undirstöðufæða annarra vatnadýra, jafnt hryggleysingja sem hryggdýra, - fiska, froskdýra og fugla.

Hérlendis finnast yfir 80 tegundir rykmýs í stöðuvötnum, straumvötnum, jafnvel jökulám, sjó og jarðvegi. Mývatn er þekktast vatna sem uppeldisstöð rykmýs.

Author

Erling Ólafsson 13. desember 2016.

Biota