Krossköngulóarætt (Araneidae)

In General

Ættin finnst um heim allan. Þekktar tegundir eru um 3.100 í um 170 ættkvíslum. Í Evrópu eru 109 tegundir skráðar og fjölmargar undirtegundir. Þær heyra undir 25 ættkvíslir. Ættin er þriðja tegundaríkasta ætt köngulóa.

Til ættarinnar heyra margar stórar og litskrúðugar köngulær kunnuglegar fólki í húsagörðum víða. Þær eru flestar með sterkbyggðan mismunandi formaðan höfuðbol og kröftuga fætur með áberandi burstum. Afturbolur er egglaga, bólginn og kúlulaga á þroskuðum kvendýrum í eggjaframleiðslu. Köngulærnar hafa átta augu sem öll eru jafnstór.

Þetta er langstærsta ættin sem vefur stóra hringlaga veiðivefi sem flestir þekkja sem hinn dæmigerða köngulóarvef. Vefurinn er gerður úr mismunandi gerðum silkiþráða, að grunni til grind úr límlausum þráðum út frá miðpunkti og síðan spírall úr límkenndum þráðum þvert á burðarþræðina. Oft kallaður hjólvefur.

Mökunaratferli er áhugavert og flókið og ekki án áhættu en karldýrið þarf að fara sér að gát. Það tekur sér góðan tíma í að nálgast kvendýrið. Ýmist mjakar karldýrið sér til kvendýrsins í miðjum vefnum eða hann spinnur sérstakan þráð og lokkar kerluna út á hann með titringi ef hún er tilbúin til mökunar. Mökunin fer þá fram á þræðinum. Karldýr eru misstór sum margfalt minni en kvendýrin, önnur nokkru minni. Litlir karlar hafa þann háttinn á að nálgast kvendýr inn í miðju vefsins. Lítil fyrirferð dregur úr líkum á að verða séður og auk þess er næringargildið lítið. Stærri karldýr lokka kvendýr frekar út á mökunarþráð. Þar á það fullt í fangi með að hanga á þræðinum og flóttaleið karldýrsins er stutt út úr vefnum. Í öllum tilfellum  gildir fyrir karlinn að vera snöggur að athafna sig.

Á Íslandi hafa fundist átta tegundir, þar af 4 í náttúrunni, ein í gróðurhúsi og 3 tilfallandi slæðingar.

Author

Erling Ólafsson 1. febrúar 2017.

Biota