Járnsmiðsætt (Carabidae)

In General

Smiðsbjöllur eða smiðir finnast um heim allan og er ætt þeirra með tegundaríkustu ættum dýra. Fræðiheiti ættkvíslarinnar Carabus sem ættin dregur heitið af er komið úr grísku, karabos = bjalla með löng horn, í þessu tilviki væntanlega langa fálmara. Alls eru þekktar um 40.000 tegundir, þar af um 2.700 í Evrópu. Flestar tegundir eru af svipuðu sköpulagi en stærðarbreytileiki er mikill, allt frá 2 mm til 35 mm. Áberandi höfuð, áberandi hálsskjöldur yfir framhluta frambols, stórir skjaldvængir sem leggjast yfir aftari hluta frambols og afturbol, oftast rifflaðir langsum, stundum með grófum riflum, stundum fínum. Fálmarar einfaldir, langir, mjóir. Fætur grannir, oftast langir hlaupafætur. Margar tegundir sprettharðar. Litir eru margskonar, svartir, blásvartir, grænir, gulir, rauðir, stundum skiptir litir, jafnvel ólíkir, oft gljáandi, jafnvel með endurvörpuðum breytilegum málmgljáa. Stundum eru fullþroska flugvængir undir skjaldvængjum og eru bjöllurnar þá fleygar, stundum aðeins vængstubbar eða engir vængir. Smiðir eru langflestir rándýr.

Á Íslandi hafa fundist 33 tegundir smiðsbjallna, 26 landlægar, þar af ein innanhúss í gripahúsum, og 7 tilfallandi slæðingar með innfluttum varningi.

Author

Erling Ólafsson 11. október 2016, 23. mars 2018.

Biota