Gærubjallnaætt (Dermestidae)

In General

Á heimsvísu telst ættin varla tegundarík þó hún kunna að láta fyrir sér finna, einhver hundruð tegunda, ef til vill allt að 700 tegundir. Annars hefur reynst erfitt að skilgreina margar tegundanna. Fræðiheitið er komið úr grísku, derma (skinn) með viðskeyttri rót sagnarinnar að éta. Sem sagt skinnæta sem er við hæfi. Gærubjöllur eru flestar smávaxnar, í mesta lagi meðalstórar, 1-12 mm. Þær eru flestar sporöskjulaga og kúptar, nokkru lengri en breiðar, sumar mun lengri en breiðar, hærðar, oft með hreisturlaga litskrúðugum hárum sem geta gefið ansi villt litmynstur. Fálmarar oft með kylfulaga enda. Þeir falla ofan í gróp á hliðum höfuðs í varnarstöðu. Sömuleiðis falla lærliðir inn í gróp á stofnlið fóta við sömu kringumstæður. Lirfur eru alsettar burstum og hárum.

Flestar gærubjöllur eru hræætur sem lifa á þurrum hræjum, dauðum skordýrum, skinni, dýrahárum, fiðri, einnig plöntuleifum og lífrænum trefjum í vefnaðarvörum og hvarvetna. Það gefur auga leið að gærubjöllur eiga litla samleið með mannfólkinu að þess mati, en á meðal þeirra leynast margir skaðvaldar til vansa á heimilum og ekki síst söfnum. Gærubjöllur geta á skömmum tíma valdið umtalsverðum skaða á matvælum og ekki síður á náttúrugripum í söfnum ef ekki er brugðist við hratt til varnar þegar sýking kemur upp. Græðgi lirfanna er stundum notuð á náttúrugripasöfnum til að hreinsa bein.

Á Íslandi hafa 11 tegundir gærubjallna verið nafngreindar. Af þeim er gert ráð fyrir að sex séu landlægar í húsum okkar aðrar frekar tilfallandi. Þó getur verið erfitt að meta stöðuna, því stundum skjóta tegundir upp kolli staðbundið og fjölga sér greiðlega um tíma, en því verður ekki alltaf fylgt eftir auðveldlega.

Author

Erling Ólafsson 11. október 2016, 16. ágúst 2018.

Biota