Fetafiðrildaætt (Geometridae)

In General

Fetafiðrildi eða fetar eru tegundarík ætt með um 35.000 þekktum tegundum. Ættin er með þeim betur þekktu enda vinsæl jafnt hjá fræðimönnum sem áhugasömum fiðrildasöfnurum.  

Fetar eru flestir meðalstór fiðrildi, sumir þó minni og aðrir stærri. Bolur þeirra er grannur en vængir, jafnt framvængir sem afturvængir. Margar tegundir eru skrautlegar með skýrum og einkennandi litmynstrum. Þær minna því óneitanlega á stærri skrautfiðrildi eins og dröfnufiðrildaætt þó skyldleikinn sé fjarlægur. Oftast er litmynstur framvængja þó þess eðlis að fiðrildin falla vel inn í umhverfið þar sem þau sitja í hvíld á daginn en flestar tegundir fljúga að næturþeli. Í hvíld leggjast vængir yfirleitt flatir yfir bolinn og eru fiðrildin þá nánast þríhyrnulaga séð ofan frá. Fiðrildi sem setjast á blóm eftir bómasafa halda hins vegar vængjum uppréttum samanlögðum á meðan þau nærast. Fálmarar karldýra eru oft fjaðurgreindir.

Lirfurnar eru sérstæðar og einkennandi fyrir ættina. Þegar þær skríða teygst framendi fram og tekur sér stöðu, afturendinn fylgir eftir og tyllir sér niður við framendann. Við það skýst bakið upp í bogalaga kryppu.  Þá færist framendinn aftur fram, afturendinn fylgir og svo koll af kolli nánast eins og lirfan sé að stika land. Þetta hátterni gaf ættinni fræðiheitið, þ.e. geometer, sá sem mælir land. Fetalirfur nærast á plöntum og er sérhæfing tegundanna mismikil, stundum algjör. Sumar eru skaðvaldar á gróðri, m.a. í görðum okkar.

Alls hafa 20 tegundir fetafiðrilda fundist á Íslandi, þar af 15 innlendar, tvær hafa borist með vindum en þrjár að öllum líkindum með innfluttum plöntum.

Author

Erling Ólafsson 5. október 2016.

Biota