Fiðrildi (Lepidoptera)

In General

Flokkunarkerfi fiðrilda er flókið. Stundum er þeim til hagræðis skipt í dagfiðrildi og náttfiðrildi, eða stórfiðrildi og smáfiðrildi. Hvorug skiptingin hefur nokkurt flokkunarfræðilegt gildi. Fiðrildi eru margbreytilegrar gerðar.  Sum eru afar smávaxin en önnur með stórvöxnustu skordýrum. Það er fiðrildum sameiginlegt að hár hafa ummyndast í hreisturflögur sem þekja bol og vængi, hreistur í öllum regnbogans litum, sem ýmist byggjast á litarefnum eða yfirborði sem endurvarpar völdum bylgjulengdum ljóssins. Litirnir leggja grunn að annálaðri fegurð fiðrilda og breytileg litmynstur sérkenna tegundir. Uppundinn sograni er annað sérkenni fiðrildanna. Til hagræðingar er fiðrildum gjarnan skipt í tvennt, annars vegar þau sem bera vængi í hvíldarstöðu samanlagða upp frá bolnum, hins vegar þau sem leggja vængina flata eða hvelfda yfir bolinn. Heitin dagfiðrildi og náttfiðrildi sjást stundum notuð á þessar tvær megingerðir, en hafa þó lítið með raunverulegan skyldleika að gera né heldur athafnasemi að degi og nóttu, hvorki heiti né gerðir, þó vissulega sé nokkur tilhneiging á þá veru.

Bolur fiðrilda er mjúkur og viðkvæmur. Á kúlulaga höfði eru stór samsett augu og langir, grannir og margliðskiptir fálmarar, stundum með hnúð á endanum, stundum fjaðurgreindir. Munnlimir mynda langan sograna sem hringast upp undir höfuðið þegar hann er ekki í notkun. Tvö pör af stórum, oft mjög stórum vængjum, stundum minni vængjum, vængstúfum eða að vængir hafa tapast. Langflest fiðrildi eru plöntuætur, sum eru mjög sérhæfð önnur fjölhæf, sumar tegundir éta önnur smádýr eða dýrahár. Lirfurnar eru sívalningslaga langir maðkar, með harða höfuðskel með bitkjálkum, þrjú pör fóta á frambolsliðum og mismargar gangvörtur á afturbolsliðum. Sumar bera bursta eða hár og geta verið skrautlegar. Þær vaxa upp í gegnum nokkur hamskipti og púpa sig fullvaxnar. Sumar spinna áður um sig silkihjúp og púpa sig ofan jarðar, aðrar skríða niður í jarðveg. Margar tegundir eru skaðvaldar á gróðri bæði villtum og á ræktuðum matjurtum, einnig í kornbirgðum, svo og á vefnaði og prjónlesi. Í heiminum eru um 174.250 tegundir fiðrilda þekktar. Í Evrópu eru 86 ættir, 26 ættir hafa fundist á Íslandi, 17 þeirra eiga landlæga fulltrúa eða hýsa tegundir sem hingað hafa borist með vindum. Alls hafa fundist 109 tegundir sem ýmist lifa hér að staðaldri (65) eða berast með vindum (34). Í vissum tilvikum ríkir þó vafi um stöðuna. Alls 58 nafngreindar tegundir hafa borist með varningi.

Author

Erling Ólafsson 16. nóvember 2015

Biota