Yglufiðrildaætt (Noctuidae)

In General

Yglufiðrildi eða yglur eru tegundarík ætt með um 35.000 þekktum tegundum. Ættin nýtur góðs af því að hún hefur alla tíð fengið mikla athygli fræðimanna og áhugamanna. Þess vegna liggur fyrir mikil þekking á tegundunum. Þrátt fyrir það er gert ráð fyrir að raunfjöldinn gæti verið nær 100.000 um heim allan. Og þrátt fyrir mikinn fjölda tegunda í heiminum hafa ekki nema 1.450 fundist í Evrópu.

Yglur eru meðalstór fiðrildi eða gott betur. Þær eru sterkbyggðar, með gildan bol þakinn þéttum löngum hreisturflögum sem gera þær enn grófgerðari ásýndum. Einkum er frambolur sterkbyggður enda eru í honum afar öflugir flugvöðvar sem gera yglur að fluggörpum, en þær geta flogið hratt, lengi og langar vegalengdir yfir land og láð. Margar tegundir eru gæddar flökkueðli og stundum leggjat þær í langferðir svo milljónum skiptir. Langflestar tegundir fljúga að næturþeli og skarta ekki áberandi litum. Þær dyljast því vel á björtum degi. Yglulirfur eru átvögl mikil og eru sumar skaðvaldar í ræktun matjurta. Margar tegundir eru sérhæfðar í vali á fæðuplöntum en aðrar gera sér margt að góðu.

Alls hafa fundist 43 tegundir yglufiðrilda á Íslandi. Talið er að 15 þeirra séu innlendar, að 18 hafi borist með vindum erlendis frá og 9 með innflutningi. Ein tegund sem fannst í húsum er horfin. Stundum ná flækingar að fjölga sér hér á landi en sjaldnast að lifa af vetur. Í einhverjum tilvikum er í raun erfitt að meta hvort tegund sé að fullu ílend.

Author

Erling Ólafsson 5. október 2016.

Biota