Kakkalakkar og termítar (Dictyoptera)

In General

Kakkalakkar (Blattodea) og termítar (Isoptera) voru til skamms tíma sjálfstæðir ættbálkar en sameindalíffræðin hefur sýnt fram á það náinn skyldleika að þessir tegundahópar skuli hafa stöðu undirættbálka innan ættbálksins Dictyoptera. Um skeið voru bænabeiður (Mantodea) einnig hafðar undir sama hatti sem undirættbálkur en horfið hefur verið frá því og halda þær fyrri stöðu sinni sem fullgildur ættbálkur þó skyldleikinn sé ótvíræður. Heiti ættbálksins er dregið af grísku orðunum dictyon=net og pteron=vængur. Erfitt er að hrófla við gömlu íslensku ættbálkaheitunum svo rótgróin sem þau eru. Engin hefð hefur komist á eitt sameiginlegt íslenskt heiti á ættbálkinn Dictyoptera.

Kakkalakkar eru frekar stórir og jafnvel mjög stórir og forneskjulegir. Bolurinn er flatvaxinn og sporöskjulaga ofan frá séð. Hálsskjöldur stór og tiltölulega flatur, hylur fremsta lið frambols alveg að ofan og nær aftur yfir vængrætur.  Leðurkenndir framvængir hylja afturbol og ná stundum aftur fyrir hann, stundum mun styttri. Himnukenndir afturvængir samanbrotnir undir framvængjum. Sumar tegundir hafa tapað afturvængjunum og enn aðrar eru vængjalausar með öllu. Þá sést þrískipting frambols mjög vel. Haus tiltölulega lítill, kýttur inn undir hálsskjöldinn, með mjög langa og granna fálmara. Fætur eru fremur langir með mörgum göddum. Tvö stutt, lensulaga, liðskipt skott. Kvendýr verpa eggjum í egghulstrum sem ungviðið klekst síðan úr, nokkur fjöldi úr hverju hulstri. Kakkalakkar eru ýmist plöntuætur eða alætur. Þrjátíu tegundir eru þekktar úr húsakynnum og eru sumar þar til óþurfta. Í heiminum eru um 4.600 tegundir kakkalakka þekktar. Í Evrópu eru 4 ættir, 3 ættir hafa fundist á Íslandi, 2 tegundir eru taldar landlægar, 8 nafngreindar tegundir hafa borist til landsins með varningi.

Termítar eru einnig þekktir undir heitinu hvítmaurar en það heiti er villandi. Þó termítum og maurum svipi til hvað samfélög þeirra varðar þá er skyldleikinn fjarlægur. Termítar eru alkunn samfélagsskordýr. Samfélögin samanstanda af frjóum drottningum og karldýrum, ófrjóum þernum sem annast búskapinn og dátum sem tryggja varnir bús og samfélags. Termítar nærast einkum á dauðum rotnandi plöntuleifum í sverði og jarðvegi eða í dýrasaur. Sumir naga þurran trjávið. Termítar gegna einkar mikilvægu hlutverki í vistkerfum heitari landa með því að hraða niðurbroti plöntuleifa. Samfélög termíta eru afar misstór allt frá nokkrum hundruðum upp í milljónir einstaklinga. Engin skordýr lifa jafnlengi og termítadrottningar en þær geta náð allt að 50 ára aldri. Búin eru mikil undraverk, nánast verkfræðileg undur. Þau sem mesta athygli vekja eru feiknastór, að miklum hluta neðan jarðar á meðan háir stakkar skaga upp úr jörðinni allt að fimm metra eða meira. Þau eru gerð úr leir og jarðvegi, útbúin með sjálfvirkum loftskiptum, hita- og rakastýringu. Búin eru annars afar breytileg, oft að mestu neðanjarðar og ná rétt upp úr yfirborði, sum eru alveg ofanjarðar en þó með snertingu við jörð, önnur eru inni í holum viði trjáa eða bygginga. Termítar eru afar mikilvæg fæða fyrir fjölda sérhæfðra dýrategunda og einnig fyrir suma þjóðflokka frumbyggja. Þá eru einhver hundruð tegunda skaðvaldar á ökrum og í uppskeru og sumir geta valdið umtalsverðum skemmdum á húsum og húsgögnum. Í heiminum eru þekktar um 3.600 tegundir termíta Í Evrópu finnast aðeins 12 tegundir sem flokkast í þrjár ættir. Þeir finnast ekki á Norðurlöndunum nema sem slæðingar. Á Íslandi lifa þeir ekki heldur en hafa fundist sem slæðingar í tvígang. Fyrra tilfellið er nafnlaust.

Author

Erling Ólafsson, 30. nóvember 2015, 31. október 2022.

Biota