Lýs (Psocodea)

In General

Flokkunarfræði lúsa hefur lengstum verið óráðin og þeim komið fyrir í tveim ættbálkum, annars vegar Psocoptera (ryklýs), hins vegar Phthiraptera (dýralýs). Sýnt hefur verið fram á að dýralýs hafi þróast innan Psocoptera og eigi þar heima með réttu.

Lýs skiptast í þrjá undirættbálka; Psocomorpha, Troctomorpha, Trogiomorpha. Ryklýsnar deilast á alla undirættbálkana þrjá en dýralýsnar hafa þróast innan Troctomorpha. Ryklýs eru í grófum dráttum tvenns konar þegar horft er til almennra lífshátta án þess að það gangi alveg upp þróunarfræðilega, þ.e. bóklýs sem einna helst finnast í húsum og barkarlýs í berki trjáa utanhúss.

Ryklýs eru smávaxin skordýr og  flestar agnarsmáar, gjarnan ljósleitar, með mjúkan og viðkvæman bol, stundum þó dökkar á lit. Höfuð er kúlulaga með allstór samsett, útstæð augu, langa, örfína og margliðskipta fálmara, enni framstætt. Frambolur lítill en afturbolur gjarnan þaninn. Að grunni til með tvö pör vængja, framvængir stærri en afturvængir, stundum með eitt par eða án vængja, vængir stundum umbreyttir. Ryklýs lifa margar á sveppum, fléttum og þörungum t.d. í trjáberki, svo og á lífrænum leifum. Sumar lifa innanhúss á sveppum og sellulósa, gjarnan í gömlum bókum þar sem þær nærast ekki síst á líminu. Ungviðið líkist fullorðnum dýrum. Í heiminum eru yfir 5.500 tegundir þekktar. Í Evrópu finnast 15 ættir, 6 ættir á Íslandi, alls 10 tegundir, 7 þeirra einungis innanhúss.

Dýralýs eru yfirleitt smávaxnar en breytilegar að stærð, flatvaxin, vængjalaus sníkjudýr á fuglum og spendýrum. Þær eru sérhæfðar á hýsla, leggjast á eina tegund eða fáar náskyldar, auk þess oft sérhæfðar á stað á hýslinum. Sumir hýslar bera nokkrar tegundir lúsa hverja með sinn kjörstað á bolnum. Dýralýs skiptast í þrjá undirættbálka, Amblycera, naglýs á fuglum, Ischnocera, naglýs á fuglum og spendýrum, og Anoplura, soglýs á spendýrum. Naglýs lifa utan á hýslum sínum, naga fiður, hár og húðflögur. Höfuðið er breitt með lítil eða engin augu, fálmarar stuttir og munnlimir gerðir til að naga. Fætur með sterkar klær og vel búnir til að tryggja festu á hýslinum. Soglýs sjúga blóð úr spendýrum. Höfuðið er mjótt, lítil eða engin augu, fálmarar stuttir og munnlimir mótaðir til að sprengja húð og sjúga. Ein sterk kló er á hverjum fæti, til að tryggja festingu við hýsilinn. Í heiminum eru þekktar yfir 3.000 tegundir dýralúsa. Í Evrópu eru 17 ættir, 8 ættir finnast á Íslandi, alls 78 tegundir auk nokkurra undirtegunda. Langflestar eru naglýs á fuglum, 5 naglýs á spendýrum og 6 soglýs á spendýrum, þar af 3 á manninum (1 þó sennilega horfin).

Author

Erling Ólafsson 30. nóvember 2015, 15. desember 2023

Biota