Blaðlúsaætt (Aphididae)

In General

Ættin inniheldur þúsundir tegunda og er erfitt að henda reiður á þeim. Töluna 4700 má finna en hún er ósannfærandi. Blaðlýs eru jurtasugur flestar sérhæfðar á hýsilplöntur, ýmist eina ákveðna eða nokkrar náskyldar, eða óskyldar tegundir eftir þroskastigi lúsanna. Sem dæmi má nefna að visst þroskastig kann að lifa á laufblöðum ákveðinnar hýsilplöntu á meðan annað þroskastig leggst á rætur fjarskyldrar hýsilplöntu. Sumar blaðlýs eru alvarlegar meinsemdir á nytjaplöntum, ekki einungis með því að sjúga úr þeim safann heldur einnig með því að bera í þær sýkingar.

Blaðlýs eru smávaxin skordýr, fáeinir mm eða minni. Bolurinn er mjúkur, oftast nær grænn, stundum rauður, brúnn, perulaga í lögun, augu lítil, fálmarar tiltölulega langir og munnlimir mynda stinnan sograna. Flestar hafa tvær uppréttar álmur eða túpur aftarlega á hliðum bolsins, stundum nokkuð langar. Sumar blaðlýs eru vængjaðar á ákveðnu þroskastigi.

Blaðlýs fjölga sér hratt með tíðum meyfæðingum. Á ákveðnu þroskastigi á sér stað kynæxlun. Þær geta margfaldast á örskömmum tíma og dreifst léttilega með vindum. Blaðlýs eru afar mikilvægar í vistkerfum. Fjöldi smádýra lifir á þeim ýmist með því að éta þær eða sýkja með eggjum sínum.

Úrgangur blaðlúsa er afar sætur og kallast hunangsdögg. Safi plantnanna inniheldur hátt hlutfall sykra og til að fá nægan skammt af prótínum þurfa lýsnar að draga til sín yfirskammt af sykrum sem þær losa frá sér sem úrgang.  Önnur skordýr sækja í hunangsdöggina.

Blaðlýs á Íslandi eru tiltölulega lítið rannsakaðar. Þær eru torgreindar og krefst það sérfræðiþekkingar. Oftast er nauðsynlegt að vita hverjar hýsilplönturnar eru og þekkja hin ýmsu þroskastig til að eiga möguleika á að greina tegundir. Alls hafa 50 tegundir verið skráðar hér á landi en sú tala gæti hækkað til muna ef rannsóknir yrðu ítarlegri og mætti vænta margra nýrra tegunda  sem tengjast ylrækt og innflutningi plantna.

Author

Erling Ólafsson 18. nóvember 2016.

Biota