Barkartvífætluætt (Blaniulidae)

In General

Heimkynni ættarinnar eru fyrst og fremst í vestanverðri Evrópu en tegundir hafa borist til annarra svæða eins og til Norður-Ameríku. Þekktar eru 20 ættkvíslir í heiminum þar af 19 í Evrópu með samtals 44 tegundir. Á Norðurlöndum eru ættkvíslirnar 6, hver og ein með einni tegund.

Bolurinn er  sívalur, langur og oftast örgrannur. Margar tegundir eru augnlausar og eru slíkar ljósar á lit. Fræðiheitið bendir til augnleysis en gríska orðið blanos merkir blindur. Ef augu eru til staðar þá eru þau í einni eða tveim röðum á hliðum höfuðs, ekki í klösum, slíkar tegundir eru dekkri á lit. Áberandi röð eiturkirtla langs eftir hliðunum einn á hverjum lið bolsins. Þeir sjást sem litaðir dílar, oft rauðir. Bak- og kviðplötur liðanna eru samvaxnar þannig að þær mynda heilan samfelldan hring um liðinn. Skilin milli framhluta og afturhluta bakplatna eru ógreinileg. Aldrei með halabrodd aftur úr bolnum eins og margar tegundir gljátvífætluættar. Fætur stuttir og sjást vart þegar horft er ofan á bolinn. Á karldýrum eru kynlimir sýnilegir þegar þeir eru ekki í notkun og liggja aftur á milli næsta fótapars.

Á Íslandi hafa fundist 4 tegundir ættarinnar sem er allnokkuð miðað við hin Norðurlöndin. Aðeins ein er þó útbreidd og ef til vill gamalgróin. Þúsundfætlur af þessu tagi berast léttilega á milli landa með flutningi á gróðurvörum.

Author

Erling Ólafsson 25. janúar 2017.

Biota