Steinfluguætt (Capniidae)

In General

Ein af stærri ættum steinflugna, útbreidd á norðurhveli, með um 300 þekktar tegundir. Í Evrópu finnast aðeins 20 tegundir og tilheyra þær 4 ættkvíslum. Margar tegundir eru mjög staðbundnar vegna aðlögunar að ríkjandi staðháttum, en ættin hefur víða þróað með sér kuldaþol við sérstakar aðstæður. Auk þess eru tegundirnar ófleygar og hamlar það dreifingu sérþróaðra forma sem því einangrast.

Þetta eru frekar smávaxnar steinflugur, flestar undir 10 mm á fullorðinsstigi, þær minnstu 4 mm en stærstu 25 mm. Bolurinn er allur jafn grannur, höfuð með lítil kúpt hliðstæð augu og langa þráðlaga fálmara. Frambolur langur og fram- og afturvængir því vel aðskildir, þ.e. ef með vængi. Þó sumar tegundir séu vængjaðar, þ.e. kvendýrin, þá duga vængirnir þeim ekki til flugs. Tvö löng þráðlaga skott (cerci).

Ungviði elur aldur sinn í vatni, á grynningum í straumvatni þar sem súrefnisblöndun er virk. Bolurinn er langur og grannur, líkist fullorðnu dýrunum og fá vængjaðar tegundir vængvísa á síðasta þroskastigi ungviðis, þ.e. gyðlustigi. Fullþroska gyðlur skríða úr vatninu upp á bakkann rétt áður en kemur að hamskiptum yfir á fullorðinsstig. Það gerist á veturna eða eldsnemma vors og sjást fullorðin dýr oft skríðandi um á snjó.

Á Íslandi finnst aðeins ein tegund og er hún útbreidd um land allt.

Author

Erling Ólafsson 10. febrúar 2017.

Biota