Gullglyrnuætt (Chrysopidae)

In General

Þessi útbreidda ætt inniheldur um 1.200 tegundir í heiminum, jafnvel mun fleiri, og er þeim deilt á um 85 ættkvíslir. Í Evrópu eru þekktar 73 tegundir í 14 ættkvíslum. Tvær ættkvíslir, Chrysopa og Chrysoperla, eru ráðandi í okkar heimshluta og virðast þær æði óljósar. Stöðugt er verið að færa tegundir á milli ættkvíslanna, fram og til baka. Má því efast um tilganginn með því að viðhalda þessum aðskilnaði.

Netvængjur af ættinni eru afar heillandi skordýr. Stærðarbreytileiki er mikill eða 6-65 mm vænghaf. Flestar tegundir eru fagurgrænar eða grænbrúnar með sindrandi tæra breiða vængi sem mynda risþak yfir grannan langan afturbol þegar setið er og ná langt aftur fyrir bolinn. Fálmarar langir og grannir. Stór hvelfd útstæð augun eru gulgræn eða fagurgyllt sem gullmolar. Á skjön við glæsilegt útlit gefa sumar frá sér ódaun úr frambolskirtlum sér til varnar. Fyrsti liður frambols nokkuð langur og mjórri en hinir aftari og færir það höfuðið verulega fram. Fætur mjög einfaldir, fíngerðir og grannir, án bursta.

Gullglyrnurnar hafa mjög virk heyrnarskynfæri við vængrætur. Með því heyra þær t.d. í leðurblökum og láta sig þá falla. Kynin eiga í samskiptum með titringi bols, undirlags og heyrn. Sumar tegundir eru óaðgreinanlegar nema af ólíkum hljóðboðum.

Eru einkum á ferli í ljósaskiptum eða að nóttu til. Fullorðin dýr margra tegunda eru rándýr sem lifa m.a. á blaðlúsum, skjaldlúsum og öðrum smákvikindum. Aðrar nærast á frjókornum, blómasafa og hunangsdögg blaðlúsa (sætum skít). Lirfur allra tegunda eru rándýr, ekki síst á blaðlúsum og skjaldlúsum, og gegna hlutverki við að halda fjölda þeirra í skefjum. Þær eru langar, breiðastar um miðju og eru skil milli frambols og afturbols frekar óljós. Á hliðunum eru burstakransar. Stórir framstæðir kjálkar, krókbeygðir í endann, fálmarar styttri en kjálkarnir.

Ein tegund er algengur flækingur á Íslandi. Reyndar gætu þær verið fleiri því sú meinta tegund er af tegundahópi þar sem biðilshljóðin aðgreina tegundirnar best.

Author

Erling Ólafsson 10. febrúar 2017.

Biota