Húskakkalakkaætt (Ectobiidae)

In General

Tegundaríkasta ætt kakkalakka, útbreidd um heim allan með um 1.700 þekktar tegundir. Í Evrópu eru skráðar 140 tegundir í 8 ættkvíslum.

Ættin hýsir minni gerðir kakkalakka en flestar tegundirnar eru smávaxnar til meðalstórar, frá 3 mm á lengd, en algengasta lengd er um 12 mm. Margar tegundir eru fagurlitaðar og skrautlegar. Flestar halda sig á trjám og runnum og fara dult í afdrepum, eru flestar á ferli að nóttu til en færri í dagsbirtunni. Sumar halda sig í húsum okkar til óþurfta. Margar eru vel fleygar, kvendýr þó stundum ófleyg og flugvængjalaus undir stórum leðurkenndum framvængjum. Flestar hafa langa og granna fætur og hlaupa hratt. Langliðir fóta alsettir sterkum burstum allt um kring, lærliðir aðeins á neðra borði. Fálmarar eru langir og oft grannir, jafnlangir bolnum eða lengri. Tvö liðskipt vítt aðskilin skott (cerci) á afturenda, kynplata karldýra samhverf. Kakkalakkarnir lifa ekki síst á fæðu úr gróðurríkinu en sumir eru alætur.

Á Íslandi hafa fundist 3 tegundir. Ein þeirra er talin landlæg á heimilum, aðrar tilfallandi slæðingar og á önnur þeirra ágætan möguleika á að setjast hér að innanhúss.

Author

Erling Ólafsson 9. febrúar 2017.

Biota