Húsfluguætt (Muscidae)

In General

Af húsfluguætt eru þekktar yfir 5.000 tegundir um víða veröld. Í Evrópu hafa yfir 570 tegundir verið skráðar. Margar tegundir lifa í nábýli við manninn, í híbýlum og gripahúsum, sumar eru skaðvaldar í framleiðslu matvæla og aðrar alvarlegrir sýklaberar. Langflestar eru þó með öllu óháðar manninum. Flestar lifa á rotnandi plöntuleifum, sumar á rotnandi dýrahræjum. Sumar laðast að sykri, blóðvökva, svita og tárum og geta því gerst ágengar við máttvana fólk og dýr. Uppeldisstöðvar eru við fjölbreytilegar aðstæður, í þurru, röku og blautu umhverfi, í vötnum, í skít.

Tvívængjur húsfluguættar eru í hugum flestra hinar dæmigerðu flugur. Flestar tegundir eru meðalstórar, 5-10 mm. Þær eru sterkbyggðar samanreknar, oftast einfaldar á lit, gráar, dökkar, stundum með langröndum á frambol og flekkjum á afturbol, fætur oftast dökkir, stundum gulir. Höfuð er stórt með stórum hvelfdum augum, á stórum 3. lið fálmara er grönn svipa sem stundum er fjöðruð, ýmist stutt- eða langfjöðruð. Frambolur sterkbyggður með öflugum flugvængjum. Næm sjón og öflugir vöðvar gera flugurnar afar kvikar. Vængir oftast glærir. Afturbolur oft þykkur. Lirfur eru dæmigerðar tvívængjulirfur, hvítir maðkar.

Húsflugan er þekktust tegunda ættarinnar sem við hana er kennd. Hún er oft talin með hættulegri dýrum jarðar vegna þess hve ágeng hún er og ber ötullega með sér alvarlega sjúkdómsvalda.

Á Íslandi eru 28 tegundir húsfluguættar skráðar. Ein er talin hafa borist með varningi, önnur var flutt inn til að vinna gegn áleitnum húsflugum í svínabúum. Aðrar eru í náttúrunni, sumar afar algengar og áberandi víða.

Author

Erling Ólafsson 13. desember 2016.

Biota