Blaðvespnaætt (Tenthredinidae)

In General

Ættin er sú tegundaríkasta af undirættbálki sagvespna (Symphyta). Yfir 7.500 tegundir eru þekktar í heiminum og deilast þær á 430 ættkvíslir. Í Evrópu eru um 1.080 tegundir skráðar í 92 ættkvíslum.

Blaðvespur eru flestar meðalstór skordýr um eða undir 10 mm, stundum þó stærri. Breytilegar á lit, oft svartar gljáandi, oft mislitar, röndóttar, gular, rauðar. Bolurinn nokkurn veginn jafnbreiður  fram og aftur, mittið breitt, kvendýr stundum með breiðari langegglaga afturbol. Fálmarar nokkuð langir úr fáum  (5-9) löngum liðum. Vængir nokkuð stórir, breiðir, framvængir stærri en afturvængir. Fætur nokkuð langir, oft gulir, rauðir. Kvendýr hafa frekar stuttan flatan varpbrodd. Með honum særa þau yfirborð plantna og verpa eggjunum í sárin.

Blaðvespur eru plöntuætur, lirfur langflestra tegunda halda sig utan á laufblöðum og éta þau, oft til skaða. Í færri tilfellum grafa þær sig inn í blöð eða stilka. Þær líkjast fiðrildalirfum fljótt á litið.

Á Íslandi finnast 14 tegundir blaðvespna, þar af nokkrir nýlegir landnemar og eru tvær tegundanna enn ónafngreindar enda er um flókna ætt að ræða.

Author

Erling Ólafsson 30. janúar 2017, 10. mars 2018.

Biota