Barrskógabukkar (Monochamus)

In General

Barrskógabukkar, svo nefnast tegundir trjábukka af ættkvíslinni Monochamus sem finnst um heim allan og eru tegundir hennar í kringum 120 talsins. Sem tegundahópur eru bjöllurnar áþekkar að gerð, stórvaxnar með langan, sívalan bol, stundum ívið grennri á karldýrum en kvendýrum. Grunnlitur er ýmist svartur eða brúnleitur, oftast með ljósum yrjum, einkum kvendýrin. Algengt er að þessar tegundir dafni í barrskógum.

Höfuð er stórt og kröftugt, álíka breitt og hálsskjöldur, með stóra og sterka bitkjálka. Fálmarar eru feiknalangir, gerðir úr tíu liðum, fyrsti liður stuttur og þykkur, aðrir langir og grennri. Á karldýrum eru þeir nánast tvöföld bollengdin, aðeins lengri en bolurinn á kvendýrum. Hálsskjöldur er sívalur og sterk hliðstæð útskot eða horn eru á honum miðjum. Hann er mjórri en yfir skjaldvængina. Framhorn aðfelldra skjaldvængja mynda rétt horn. Fætur eru langir, öll pörin ámóta löng.

Lífshættir tegundanna eru áþekkir. Eftirfarandi lýsing á háttum á við flestar tegundanna og verður því ekki endurtekin í umfjöllun um þær. Lirfurnar alast upp inni í viði trjáa. Flestar eru sérhæfðar á trjátegundir og fer valið eftir því hvar í heiminum bjöllurnar lifa. Hin ýmsu barrtré eru algengir valkostir. Oftast verða gömul tré fyrir valinu, gjarnan deyjandi tré, jafnvel dauð og fallin, jafnvel brunnin eftir skógarelda. Með kröftugum kjálkum nagar kvendýr trektlaga holur í börk trjánna, áfram niður í gegnum sáldvefinn og í vaxtarlagið undir honum. Það verpir einu eggi í hverja holu. Lirfan nagar fyrst holrými undir berkinum en síðan djúpan gang niður í viðinn sem hún notar sem athvarf. Skríður svo aftur út í vaxtarlagið og nærist á því. Viðarflísum sem losna við nagið sópar lirfan út á yfirborðið svo þar myndast spónahrúgur og sýking trésins verður augljós. Fullvaxin lirfa grefur sér leið út að yfirborðinu og púpar sig þar. Þegar bjöllurnar hafa skriðið úr púpum naga þær sér leið út á yfirborðið og skilja eftir sig um 10 mm breið borgöt. Uppvöxtur tekur mislangan tíma eftir aðstæðum en tvö ár er algengur uppvaxtartími. Lirfurnar geta valdið verulegum skaða á nytjaviði með nagi sínu. Auk þess bera sumar tegundir skaðlegar sýkingar milli trjáa.

Ýmis vandamál hafa verið uppi varðandi skilgreiningar tegunda og eru sum enn óleyst. Sem dæmi má nefna tegundir sem borist hafa hingað til lands. Þó bjöllurnar séu stórar og gerðarlegar er ekki sjálfgefið að útlitseinkenni dugi vel til að aðgreina þær. Í nýlegri úttekt var reynt að skýra málin með rannsóknum á kynfærunum sem liggja dulin innvortis í afturbolnum og er hér tekið mið af þeim niðurstöðum. Í sumum eldri heimildum  má lesa ólíkar túlkanir. Til dæmis hefur grenibukkur (Monochamus sartor) verið þvælinn. Tvær áður aðskildar tegundir eru nú taldar vera ein og sama, túlkaðar sem undirtegundir grenibukks, M. sartor sartor (Fabricius, 1787) og M. sartor urussovii (Fischer von Waldheim,1806). Sú síðarnefnda hefur einnig gengið undir heitinu M. rosenmuelleri (Cederjelm, 1798) í heimildum.

Í Evrópu finnast sex tegundir ættkvíslarinnar og eru þá ekki taldir tilfallandi slæðingar frá öðrum heimsálfum. Barrskógabukkar eru mest áberandi villuráfandi trjábukka hér á landi. Alls hafa sex tegundir verið nafngreindar, fjórar evrópskar, ein asísk og ein amerísk. Eintök fleiri tegunda eru varðveitt í safni Náttúrufræðistofnunar Íslands. Ekki auðveldar það greiningar þegar ekki er vitað hvaðan úr heiminum bjöllurnar hafa borist til landsins.

Author

Erling Ólafsson 14. júní 2019.

Biota