Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

Útbreiðsla

Dvergmáfur er varpfugl í grösugu votlendi inn til landsins, frá norðanverðri Skandinavíu og Eystrasaltslöndum austur til Kyrrhafs. Hann hóf að verpa í N-Ameríku á seinni hluta 20. aldar og verpur einkum við Vötnin miklu. Dvergmáfur er farfugl og dvelst víða við strendur Evrópu, frá Bretlandseyjum og Norðursjó og suður um og einnig við austurströnd N-Ameríku. Hann hefur verið hér alltíður flækingsfugl um langt skeið og sést á öllum árstímum. Er þó langalgengastur á vorin (maí-júní) en sést einnig talsvert síðla sumars og í september (Gunnlaugur Þráinsson o.fl. 2011). 

Stofnfjöldi

Dvergmáfar urpu fyrst við Mývatn árið 2003 og hafa að öllum líkindum orpið þar árlega síðan (1-3 pör). Eins hafa þeir orpið við Víkingavatn í Kelduhverfi (Jóhann Óli Hilmarsson 2011). Í seinni tíð hafa pör reynt varp á nokkrum stöðum í Þingeyjarsýslum svo mögulega eru dvergmáfar hægt en örugglega að dreifa úr sér (Yann Kolbeinsson, óbirt gögn).

Válistaflokkun

VU** (tegund nokkurri í hættu)

ÍslandEvrópuválistiHeimsválisti
VU** LC LC

Forsendur flokkunar

Kynslóðalengd (IUCN): 4,87 ár
Tímabil sem mat miðast við (3 kynslóðir): 2009-2024

Aðeins örfá dvergmáfspör verpa hér á landi og mætti því flokka tegundina í bráðri hættu (CR). Hér verður hann færður niður um tvo hættuflokka samkvæmt leiðbeiningum IUCN enda miklar líkur á landnámi og íslenski stofninn telst ekki einangraður og er auk þess langt innan við 1% af Evrópustofni.

Viðmið IUCN: (D)

D. Stofn mjög lítill eða takmarkaður.

Hættuflokkar Alþjóðanáttúruverndarsamtakanna (IUCN)

Viðmið IUCN um mat á válista (pdf)

Eldri válistar

Válisti 2000: Dvergmáfur var ekki á válista.

Válisti 2018: Dvergmáfur var í nokkurri hættu (VU).

Verndun

Dvergmáfur er friðaður samkvæmt lögum nr. 64/1994 um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

Mikilvæg svæði

IBA viðmið – IBA criteria

A4i: heimsstofn/global = 666 pör/pairs (Wetlands 2016).

B1i: Mið- og A-Evrópa/SV-Evrópa og Miðjarðarhaf = 333 pör/pairs (Wetlands 2016).

Heimildir

Gunnlaugur Þráinsson, Yann Kolbeinsson & Gunnlaugur Pétursson 2011. Sjaldgæfir fuglar á Íslandi 2007. – Bliki 31: 41-64.

Gunnlaugur Pétursson og Gunnlaugur Þráinsson 1999. Sjaldgæfir fuglar á Íslandi fyrir 1981. – Fjölrit Náttúrufræðistofnunar 37. 246 bls.

Jóhann Óli Hilmarsson 2011. Varp sjaldgæfra gufla 2011. Fuglar, nr 8 (16-19).

Wetlands International 2016. Waterbird Population Estimates. http://wpe.wetlands.org/search [skoðað 26. nóvember 2016].

Höfundur

Kristinn Haukur Skarphéðinsson maí 2017, júní 2018, október 2018

Aldís Erna Pálsdóttir mars 2025

Ríki (Kingdom)
Dýr (Animalia)
Fylking (Phylum)
Seildýr (Chordata)
Flokkur (Class)
Fuglar (Aves)
Ættbálkur (Order)
Strandfuglar (Charadriiformes)
Tegund (Species)
Dvergmáfur (Hydrocoloeus minutus)

English Summary

Hydrocoloeus minutus is a recent and very rare breeding bird in Iceland with 1-3 breeding annually. No IBAs are designated for this species.

Icelandic Red list 2025: Vulnerable (VU).