Jarðgrunnur

Jarðgrunnur liggur ofan á berggrunni, hvoru tveggja ofan- og neðansjávar. Hann er yfirleitt laus, óharðnaður og gerður úr misstórri bergmylsnu (seti) sem hefur rofist eða veðrast úr bergi. Jarðgrunnurinn er samsettur af ýmsum gerðum lausra jarðlaga (setmyndunum), ásamt þeim landformum, eða landslagi, sem roföflin mynda eða móta í hann, til dæmis jökulgarðar.

Stærsti hluti íslensks jarðgrunns myndaðist í lok ísaldar þegar jöklar hopuðu af landinu en þá voru roföflin hvað mikilvirkust. Þetta endurspeglast í hinum ýmsu gerðum jarðgrunns og magni þeirra. Algengasta gerð jarðgrunns hér á landi er jökulruðningur sem jöklar á ísöld og nútíma hafa rofið og borið fram. Aðrar algengar gerðir eru sand- og malarhjallar og gamlar óseyrar sem mynduðust við hærra sjávarmál í lok ísaldar. Einnig má nefna áreyrar, jökuláraura og sanda sem jökulhlaup og vatnsföll af ýmsum gerðum hafa borið fram á nútíma. Þá finnast ýmiss konar urðir og skriður utan á fjöllum sem frostveðrun að fornu og nýju hefur mulið úr klettum og klettabeltum.