Stöðuvötn

Stöðuvatn er allstórt vatnsflæmi girt landi á alla vegu. Jafnan er jafnvægi milli inn- og útrennslis þó svo hæð yfirborðs geti sveiflast, til dæmis eftir árferði. Oftast er inn- og útrennsli í formi lækja eða áa en stundum rennur í og úr vötnum neðanjarðar.

Á Íslandi eru mörg stöðuvötn og eru vatnastæði þeirra margvísleg og ólík að uppruna; Skorradalsvatn og Lagarfljót eru dæmi um stöðuvötn sem mynduðust við jökulrof á ísöld; Ljósavatn og Hreðavatn urðu til við eldsumbrot þegar hraun stífluðu dældir; Þingvallavatn og Skjálftavatn í Kelduhverfi (sem myndaðist 1976–1977 í Kröflueldum) urðu til við jarðskorpuhreyfingar eða jarðsig; Hraunsvatn í Öxnadal og Flóðið í Vatnsdal urðu til við skriðuföll. Þá verða jökullón við jökulbrúnir sífellt meira áberandi eftir því sem jöklar hörfa hraðar í hlýnandi loftslagi. Á seinni áratugum hefur einnig ný gerð stöðuvatna bæst í hópinn, það eru manngerð uppistöðulón sem verða til við virkjanaframkvæmdir.

Flest stöðuvötn á Íslandi eru fremur smá. Þingvallavatn var lengi stærst, 83 km2, en með tilkomu Vatnsfellsvirkjunar varð Þórisvatn stærra eða 86 km2. Öskjuvatn sem myndaðist í tengslum við eldsumbrot í Dyngjufjöllum og Öskju á árunum 1874–1875 var lengi talið dýpsta vatn á landinu. Það er 220 m djúpt. Nýlegar mælingar benda hins vegar til að Jökulsárlón á Breiðamerkursandi sé dýpst, eða 248 m. Jökulsárlón er ungt og enn í myndun en það birtist eftir að Breiðamerkurjökull tók að hopa úr jökulsæti sínu á Breiðamerkursandi árið 1933. Það stækkar stöðugt eftir því sem jökullinn hopar innar og vatnið fyllir upp í djúpt farið sem jökullinn hefur plægt niður í sandinn.