RANNSÓKNIR

Meginhlutverk Náttúrufræðistofnunar Íslands er að stunda undirstöðurannsóknir í dýrafræði, grasafræði og jarðfræði landsins. Stofnunin annast skipulega heimildasöfnum um íslenska náttúru, skrásetur tilvist tegunda og kortleggur útbreiðslu þeirra. Vöktun og rannsóknir ná til lands, sjávar og ferskvatns og eru niðurstöður varðveittar í gagnasöfnum.

Í vísindasöfnum Náttúrufræðistofnunar Íslands eru varðveitt eintök og sýni af tegundum lífvera, steingervingum, seti, gjósku, borkjörnum, steindum og bergi. Um er að ræða fræðileg söfn sem eru mikilvæg undirstaða í rannsóknum á náttúru landsins en fræðimenn nota þau til samanburðar á eintökum og til frekari rannsókna. Vísindasöfnin endurspegla breytileika náttúrunnar, ásamt sögu lands og lífs.

Vísindasöfnin skiptast í þrjú meginsöfn: dýrasafn, plöntu- og sveppasafn og jarðfræðisöfn. Safneinsök eru stundum lánuð innlendum og erlendum fræðimönnum vegna rannsókna. Að auki eru náttúrugripir lánaðir tímabundið á sýningar og til fræðslu á vegum opinberra stofnana eða á viðurkennd sýningarsöfn. Reglur um gripalán.