Fuglastofnar

Þekking á einstökum fuglastofnum er afar misjöfn og á það hvoru tveggja við um stofnstærð og stofnþróun. Gróflega áætlað verpa hér um 10 milljón fuglapör og er mikill meirihluti þeirra sjófuglar eða um 7,5 milljón pör. Reyndar eru nær allir stærstu fuglastofnar landsins sjófuglar, eins og lundi, fýll og langvía, en auk þess er þúfutittlingur í þeim hópi. Allmargar tegundir verpa hér í hundruð þúsunda eða jafnvel milljóna tali, en flestir stofnar telja þúsundir eða tugþúsundir varppara. Athygli vekur hversu fáir sjófuglar eru meðal fáliðuðustu tegundanna (<1000 pör). Fjallað er ítarlega um íslenska fuglastofna í skýrslunni Vöktun íslenskra fuglastofna: Forgangsröðun tegunda og tillögur að vöktun (pdf).

Margar fuglategundir hreiðra um sig í þéttum vörpum, svonefndum fuglabyggðum, þar á meðal flestir sjófuglar. Skráðar hafa verið um 4.500 sjófuglabyggðir, reyndar eru margar þeirra aðeins með stök eða örfá pör. Fæstar byggðir eru hjá skrofu (7 byggðir) og súlu (9 byggðir) en flestar hjá fýl og kríu (um 1.500 hjá hvorri tegund). 

Miklar sviptingar hafa verið í sjófuglastofnum hér á síðari árum og eru flestir þeirra, nema stofnar súlu og dílaskarfs, á niðurleið. Flestir vatnafuglastofnar, það er stofnar gæsa og anda, eru hins vegar stöðugir eða í vexti. Minna er vitað um stofnþróun vaðfugla og spörfugla, nema hvað jaðrakan hefur fjölgað fram á síðustu ár. Eins hefur sumum skógarfuglum, eins og auðnutittlingi og músarrindli, fjölgað með vaxandi trjárækt.

Ísland gegnir lykilhlutverki á alþjóðavísu fyrir margar fuglategundir. Auk sjófuglanna verpa hér stórir stofnar bersvæðafugla, þar á meðal stærstu stofnar heiðlóu, spóa og lóuþræls sem finna má í Evrópu.

Ævar Petersen 2008. Iceland. Bls. 19–22 Í Petersen, A., D. Irons, T. Anker-Nilssen, Y. Artukhin, R. Barrett, D. Boertmann, C. Egevang, M.V. Gavrilo, G. Gilchrist, M. Hario, M. Mallory, A. Mosbech, B. Olsen, H. Osterblom, G. Robertson og H. Strøm 2008. Framework for a Circumpolar Arctic Seabird Monitoring Network. CAFFs Circumpolar Biodiversity Monitoring Program. CAFF CBMP Report no. 15.