Landslag

Á míósen-tíma, fyrir 5,3–23 milljónum ára, einkenndist landslag í gosbeltum landsins af áhrifum eldvirkni, það er að segja hraunum sem runnu frá sprungum, dyngjum og öðrum eldfjöllum. Utan gosbeltanna slípuðu roföfl (vatnsföll og veðrun) hraunstaflann og mótuðu V-laga dali og sjávarkletta, en almennt séð hefur landið verið mun sléttara en nú er.

Á plíósen-tíma fyrir 2,6–5,3 milljónum ára fór loftslag kólnandi og jöklar tóku að myndast. Á ísöld (pleistósen-tíma) fyrir 0,8–2,6 milljónum ára skiptust á jökulskeið og hlýskeið. Jöklar ísaldar bera mesta ábyrgð á því hvernig landslag á Íslandi er í dag. Þeir grófu U-laga dali og djúpa firði með bröttum fjöllum í landið. Einnig hafa jöklar ísaldar valdið því að svipmikil og einkennandi móbergsfjöll mynduðust í gosbeltunum, eins og móbergshryggir við Langasjó og móbergsstapinn Herðubreið sem myndaðist við gos undir jökli.