Eldgosavá

Á Íslandi gýs að meðaltali á 3–6 ára fresti. Oftast eru jarðskjálftar eða jarðskorpuhreyfingar fyrirboðar eldsumbrota en stundum hefjast eldgos fyrirvaralítið. Við eldgos getur ýmis vá skapast, til dæmis hraunrennsli, jökulhlaup, gjóskufall og losun eiturefna. Eitraðar lofttegundir (H2S, SO2, F) ásamt gjóskufalli geta borist um allt land með vindum og þeirra getur jafnvel orðið vart utan landsteina. Gjóska getur einnig verið varasöm vegna eldinga, eiturgufa og annarra eiturefna. Að auki geta loftborin efni eins og gjóska raskað flugumferð.

Jarðhræringar sem fylgja eldgosum geta komið af stað flóðbylgjum, sprengingum og skriðum. Jökulhlaup í kjölfar eldgoss undir jökli geta valdið umtalsverðu tjóni vegna flóða og ísjaka sem losna í eldsumbrotunum.

Af þessu sést að eldgos geta haft mikil áhrif á loftslag og ferli í andrúmsloftinu, vatnabúskap og vistkerfi lands og sjávar, auk þess sem slök loftgæði geta haft áhrif á heilsu fólks og búfjár. Að auki geta innviðir nútímasamfélags einnig orðið fyrir tjóni, til dæmis ef flugsamgöngur fara úr skorðum.

Veðurstofa Íslands og Almannavarnadeild Ríkislögreglustjórans hafa gefið út ítarlegar viðbragðsáætlanir um eldgos.

Í Catalogue of Icelandic Volcanoes má finna frekari fróðleik um eldstöðvar landsins og eldgosavá.