Skriðuföll

Skriðuföll (e. landslides) er safnheiti sem notað er um efnisflutnings- og landmótunarferli sem verða utan í misbröttum og misháum hlíðum. Á Íslandi eru skriðuföll tíð, sennilega vegna legu landsins, samspili veðurfars, berggerðar, eyðingar gróðurs og jarðvegs utan á hlíðum. Þessi ferli eru yfirleitt mjög hröð en hægfara ferli þekkjast einnig.

Efni sem flyst til með skriðuföllum er ýmist jarðvegur, urð eða stykki úr berggrunni. Efnisflutningarnir eiga sér stað af ýmsum ástæðum, til dæmis vegna áhrifa vatnsrennslis við miklar rigningar eða leysingar, frostvirkni og frostveðrunar, bráðnunar og hvarfs sífrera, breytingar á grunnvatnsstraumum, vegna jarðskjálfta, undangraftrar sjávar eða jökla eða einfaldlega vegna áhrifa þyngdaraflsins. Þá eru vel þekkt skriðuföll af mannavöldum.

Algengustu flokkar skriðufalla hér á landi eru:

  • Grjóthrun
  • Aurskriður
  • Jarðvegsskriður
  • Berghrun
  • Berghlaup
  • Hægfara sig á efnisflykkjum

Stærsti og mest áberandi flokkur skriðufalla eru berghlaup. Flest þeirra eru talin forn og sennilega hefur mikill hluti þeirra fallið í byrjun nútíma, skömmu eftir að ísaldarjöklar hurfu.

Skriðuföll eru þekkt í öllum landshlutum, algengastar eru skriður þó á Miðnorðurlandi, Austfjörðum og Vestfjörðum. Þær eru einnig vel þekktar á Suðurlandi þó þar sé grjóthrun meira áberandi. Skriðuföll eru ólík að stærð, fara mislangt og geta átt sér stað í hvenær sem er á árinu. Mesta hættan á skriðuföllum er þó þegar haustlægðir ganga yfir landið frá ágúst til nóvember og einnig í tengslum við vorleysingar í maí og júní.

Náttúrfræðistofnun Íslands, í samstarfi við Veðurstofu Íslands, vinnur að því að vakta, rannsaka og safna upplýsingum um skriðuföll á Íslandi jafnóðum og þau verða, auk þess að safna heimildum um eldri skriðuföll. Þessar upplýsingar eru varðveittar í ofanflóðagrunni sem er sameiginlegur gagnagrunnur stofnananna tveggja um skriðuföll og snjóflóð á Íslandi.

Rannsóknir á skriðuföllum

Ástæður skriðufalla geta verið margvíslegar og fara þær meðal annars eftir byggingu og gerð jarðefnanna sem þau falla úr. Þarna er átt við eiginleika eins og pökkun, þjöppun og samlímingu sets og lausra jarðlaga eða sprungur, stuðlun og styrkleika hraunlaga og annarra gosefna. Rof, eins og undangröftur jökla á ísöld eða á nútíma, skilur oft eftir sig mjög brattar og óstöðugar fjallahlíðar sem nánast bíða eftir að falla fram. Undangröftur sjávar er einnig algeng ástæða skriðufalla. Þá er frostveðrun mikilvirkt ferli við niðurbrot, til dæmis fast bergs.

Loftlagssveiflur eru algeng ástæða skriðufalla. Á harðindatímabilinu frá 15. öld til loka 19. aldar, sem oft er nefnt litla ísöld, ágerðust skriðuföll. Frostveðrun jókst, það leiddi til meiri bergmylsnu sem síðar rataði niður fjallahlíðar í formi skriðna. Rakara og úrkomusamara loftslag getur einnig valdið auknum skriðuföllum. Þá hefur hlýnun á allra síðustu árum orsakað bráðnum sífrera sem hefur orðið til þess að stórar skriður hafa fallið úr urðum hátt í fjöllum, þar sem allt var áður frosið og fast.

Á svæðum þar sem jarðskjálftar eru tíðir og stórir er algengt að skriður falli. Stakur jarðskjálfti framkallar kannski ekki skriðufall, heldur er um að ræða samlegðaráhrif höggs og hreyfinga frá fjölda jarðskjálfta sem á löngum tíma færa efnismassa nær og nær því að losna eða hrynja og hlaupa fram sem skriða. Jarðskjálftar eru því bæði ástæður og líka eitt af þeim ferlum sem koma skriðum af stað.

Flest skriðuföll á Íslandi tengjast mikilli úrkomu eða asahláku. Að auki geta örar vorleysingar, sem og stórfelld rigning í mikinn nýfallinn snjó við umhleypingar í vetrarbyrjun, valdið því að skriður fara af stað. Vegna þessa er gott aðgengi að nákvæmum veðurathugunum og veðurspá undirstaða allrar skriðuvöktunar og viðvarana vegna skriðuhættu.

Grjóthrun tengist mjög víxlverkunum frosts og þýðu, til dæmis í vetrarbyrjun og þegar frost er að hverfa úr jörðu í byrjun sumars. Breytingar og sveiflur á grunn- og jarðvatnsrennsli í fjallahlíðum geta einnig framkallað skriðuföll. Þá má geta þess að umsvif og athafnir mannsins hafa bæði orsakað og framkallað fjölda skriðufalla, bæði erlendis og hérlendis, til dæmis námuvinnsla, efnistaka og undangröftur neðst í fjallahlíðum.

Grjóthrun er algengast skriðufalla hér á landi. Oft er aðeins um nokkra smáa steina eða völur að ræða og miðað við stærð mætti halda að auðvelt væri að forðast það. Svo er þó ekki miðað við þann fjölda sem beið bana eða slasaðist af völdum grjóthruns á 20. öld, eins og lesa má um í umfjöllun um ofanflóð.

Á eftir grjóthruni eru algengar aurskriður, jarðvegskriður og berghrun. Auðveldara er að forðast aur- og jarðvegsskriður en grjóthrun. Þær falla oft úr farvegum í fjallahlíðum sem vel að merkja geta beint skriðumassanum á til dæmis byggingar sem standa beint neðan við og eytt þeim. Áður fyrr, í upphafi Íslandsbyggðar og á miðöldum voru jarðvegsskriður mun hættulegri, það er þegar enn var töluverð þykk jarðvegsþekja víða utan á fjallahlíðum. Hún eyddist smám saman, aðallega í skriðuföllum þegar stórir jarðvegsflákar rifnuðu utan af hlíðunum og hlupu niður. Þekkt er úr heimildum að skriður af þessu tagi féllu á bæi og byggingar, eyddu þeim og ullu miklu manntjóni.

Sjaldgæfust eru berghlaup sem þó verða af og til, til dæmis á Morsárjökli 2007og í Öskju 2013. Þau voru mun algengari í lok ísaldar og á fyrri hluta nútíma eftir að ísaldarjökullinn hörfaði úr dölum og fjörðum landsins. Stór berghlaup og stærstu berghrun eru það stór skriðuföll að þau eru gjöreyðandi og stórhættuleg fyrirbrigði, því þarna er á ferðinni mikill bergmassi sem að getur farið mjög langt og hratt, en þá er um að ræða svonefnd bergflóð.