Spendýr

Á Íslandi eru fáar tegundir villtra landspendýra. Melrakki er eina tegundin sem telst upprunaleg en hann hefur sennilega átt heimkynni hér á landi allt frá lokum ísaldar. Hvítabjörn telst ekki til íslenskra dýra heldur er litið á hann sem flökkudýr. Hann hefur komið hingað öldum saman á hafís en ekki staldrað við enda háður hafís til að veiða sér seli til matar. Aðrar tegundir villtra landspendýra eru innfluttar.

Hreindýr voru flutt til landsins á 18. öld og eru búsvæði þeirra á Austurlandi. Minkur var fyrst fluttur inn til loðdýraræktar árið 1931 og var hann fljótur að sleppa úr búrum og ná fótfestu í íslenskri náttúru. Talið er að hagamús og húsamús hafi flust til landsins með landnámsmönnum en brúnrotta og svartrotta á síðari öldum.

Á 19. og 20. öld voru gerðar nokkrar tilraunir til innflutnings fleiri tegunda villtra spendýra frá nágrannaþjóðunum. Meðal þeirra voru héri, sauðnaut, silfurrefur og blárefur en engin tegundanna náði fótfestu. Þrjár tegundir leðurblaka hafa borist hingað með vindum en þær hafa ekki fjölgað sér. Kanína er algengt gæludýr á Íslandi sem hefur sloppið út í náttúruna, náð að lifa af og fjölga sér. Hún er þó ekki talin hluti af spendýrafánu landsins.

Fána sjávarspendýra er öllu ríkulegri en landspendýra þó tiltölulega fáar tegundir hafi fast aðsetur á Íslandsmiðum. Tvær tegundir sela, landselur og útselur, kæpa hér að staðaldri og fjórar selategundir, hringanóri, vöðuselur, blöðruselur og kampselur, sjást af og til við strendur landsins. Rostungur slæðist einnig hingað af og til úr norðri.

Hvalir eru flestir fardýr í eðli sínu en nokkrir hvalastofnar dvelja á svæðum innan íslensku lögsögunnar. Alls hafa 23 tegundir hvala sést á Íslandsmiðum en sumar þeirra halda sig á úthafinu og sjást því afar sjaldan.

Hægt er að lesa um 21 íslenska spendýrategund á staðreyndasíðum.

Spendýr eru metin á válista samkvæmt viðmiðum Alþjóðlegu náttúruverndarsamtakanna (IUCN). Alls eru fimm spendýrategundir á íslenskum válista.

Á Náttúrufræðistofnun Íslands eru stundaðar rannsóknir á melrakka og hagamúsum. Stofnunin heldur einnig utan um upplýsingar um hvalreka og eru finnendur beðnir um að hafa samband rekist þeir á rekna hvali.

Aðrar rannsóknir á villtum íslenskum spendýrum fara fram á Keldum (sníkjudýr í spendýrum), Melrakkasetri Íslands (refur), Náttúrustofu Vesturlands (minkur), Náttúrustofu Austurlands (hreindýr), Selasetri Íslands (selir) Hafrannsóknastofnun (sjávarspendýr) og Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsvík  (sjávarspendýr).

Páll Hersteinsson, ritstj. 2004. Íslensk spendýr. Reykjavík: Vaka-Helgafell.

Páll Hersteinsson og Guttormur Sigbjarnarson, ritstj. 1993. Villt íslensk spendýr. Reykjavík: Hið íslenska náttúrufræðifélag og Landvernd.