Verndun og nytjar

Allar fuglategundir voru ófriðaðar um aldamótin 1800 en æðurin var alfriðuð 1847. Með fyrstu fuglafriðunarlögunum árið 1882 voru spörfuglar og kría alfriðuð og veiðitímar settir fyrir flestar aðrar tegundir. Smám saman mótuðust meginreglur þar sem eindregin nytjasjónarmið viku fyrir verndarsjónarmiðum. Alfriðuðum fuglum fjölgaði mikið með lögum 1914 og aftur 1954 og veiðitegundum og ófriðuðum fuglum fækkaði að sama skapi. Ránfuglar og fiskiætur voru yfirleitt ófriðaðar fram yfir miðja 20. öld og enn í dag njóta sumir unga- og eggjaræningjar engrar friðunar. Núverandi villidýralöggjöf nr. 64/1994 byggir á Bernarsamningnum um verndun villtra plantna og dýra og búsvæða þeirra. Skotveiðar eru heimilar á 29 fuglategundum á Ísland og nýta má fimm tegundir að auki til unga- og/eða eggjatöku. Æður er mesti nytjafuglinn og hefur árleg dúntekja verið um 3.000 kg mörg undanfarin ár.

Á myndinni hér fyrir neðan er sýndur fjöldi tegunda sem mátti veiða á hverjum tíma, hversu margar voru ófriðaðar og hve margar voru alfriðaðar. Tíðar færslur milli friðunarflokka á fyrri hluta 20. aldar stafa af tímabundinni friðun rjúpu og eins að fálki færðist þrisvar milli flokka. Miðað er við reglulega varpfugla, far- og vetrargesti á hverjum tíma og almenna veiðitíma. Skúmur og súla eru hér til dæmis talin alfriðuð frá 1994, þrátt fyrir að heimilt sé að drepa unga þeirra. Eins er kjói talinn til veiðitegundar frá 1994, þrátt fyrir að einungis sé heimilt að skjóta hann við friðlýst æðarvörp.

Náttúrufræðistofnun Íslands tekur saman Válista yfir lífríki landsins samkvæmt viðmiðum Alþjóðanáttúruverndasambandsins, IUCNVálisti fugla var síðast gefinn út árið 2018 en eldri útgáfa hans er frá 2000.