Risahvannir

Meðal ágengra tegunda sem vaxa á Íslandi eru tvær náskyldar tegundir af ættkvíslinni Heracleum, stundum nefndar risahvannir. Risahvannir hafa verið notaðar sem skrautjurtir í görðum enda þykja þær blómfagrar. Þær eru hins vegar varasamar því þær eiga auðvelt með að ná fótfestu í lágvöxnum gróðri, dreifast hratt af sjálfsdáðum og geta orðið alvarlegt illgresi sem erfitt er að uppræta. Plönturnar eru eitraðar og ef safi þeirra berst á húð getur hún brunnið illa í sólarljósi. Risahvannir eru fremur sjaldgæfar utan garða enn sem komið er en tegundin hefur þó náð að mynda stórar breiður á höfuðborgarsvæðinu og í Eyjafirði.

Í Evrópu hafa fundist yfir 20 tegundir af ættkvíslinni Heracleum. Þrjár þeirra teljast til risahvanna, bjarnarkló (H. mantegazzianum), tröllakló (H. persicum) og Heracleum sosnowskyi, og vaxa tvær fyrrnefndu á Íslandi. Stærð þeirra, bæði mikil hæð sem plönturnar ná og risavaxin stærð laufblaðanna, útskýrir hvers vegna plönturnar eru nefndar risahvannir. Samkvæmt reglugerð nr. 583/2000 er óheimilt að flytja inn eða rækta risahvannir.

Uppruni og útbreiðsla

Upprunaleg heimkynni bjarnarklóar eru í Vestur-Kákasusfjöllunum. Bjarnarkló er talin vera algengasta tegundin af sveipjurtaætt og var fyrst lýst árið 1895. Gögn úr grasasöfnum á Bretlandi, í Noregi og Hollandi sýna hins vegar að kynni Evrópu af bjarnarkló hafi í raun hafist mun fyrr. Árið 1817 er plantan skráð á frælista í Kew-grasagarðsins í London. Stuttu seinna, eða árið 1828, er bjarnarkló farin að vaxa af sjálfsdáðum utan grasagarða í Cambridgeshire og fljótlega virðist plantan hafa náð að dreifa sér víðs vegar um Evrópu.

Tröllakló rekur uppruna sinn til Tyrklands, Íran og Íraks. Var tegundinni fyrst lýst árið 1829 og virðist henni löngum hafa verið ruglað saman við annað hvort bjarnarkló eða Heracleum sosnowskyi. Líkt og hjá bjarnarkló finnast fyrstu merki tröllaklóar í Evrópu í Kew-grasagarðinum í London. Voru fyrstu fræin sem sáð var af garðyrkjufræðingum í Norður-Noregi um 1836 einmitt tekin úr safni grasagarðsins.

Hvatinn að dreifingu risahvanna virðist að mestu hafa verið forvitni sem og að plantan þótti sóma sér vel í görðum. Fræjum var sáð í fjöldann allan af grasagörðum og á betri landareignir víðs vegar um Evrópu. Þetta tíðkaðist út 19. öldina en það var ekki fyrr en viðvaranir um áhrif risahvannanna birtust í vestur-evrópskum ritum um 1950 að draga fór úr útbreiðslu tegundanna af mannavöldum.

Í Evrópu finnst bjarnarkló einkum í mið- og vestanverðri álfunni en tröllakló er nær eingöngu að finna í Skandinavíu. Báðar tegundirnar voru fluttar til Íslands á síðustu öld. Útbreiðsla þeirra hér á landi bendir til þess að aukin hætta sé á frekari dreifingu plantnanna til skaða fyrir íbúa og flóru landsins.

Plöntulýsingar

Bjarnarkló (H. mantegazzianum)

Hæð plöntunnar er 2,2-3,2 m, oft með sterka, beiska lykt. Venjulega einn, lítið eitt loðinn stöngull með víðu miðholi. Neðri hluti stönguls getur verið allt að 50-100 mm í þvermál. Stöngullinn hefur fjólubláa eða dumbrauða flekki og er settur stinnum hárum neðan til, en mýkri hárum ofar. Hárin eru glær, krulluð og standa 45 gráður út frá stönglinum. Blöðin eru þrífingruð eða fjöðruð, gróftennt, með fjólublá slíður, stilkurinn venjulega 40-90 cm langur. Blaðröndin er tvítennt eða tvísagtennt með langyddum tönnum. Endar smáblaðanna eru mjó- og langyddir. Heil, samsett blöð geta verið allt að 3 m löng. Sveipirnir eru venjulega flatir eða lítið eitt kúptir, 9-15 cm háir og 25-60 cm breiðir. Aldinin eru öfugegglaga með fjórum dökkum rákum sem breikka neðst, lítið eitt loðin með stuttum kirtilhárum (0,5-1 mm).

Tröllakló (H. persicum)

Hæð plöntunnar er 1,8-2,8 m, með lykt sem líkist einna helst anís. Plantan myndar venjulega fleiri en einn (1-5), holan, hærðan stöngul, sem er fjólublár neðst en dregur úr lit ofar. Stöngulhárin eru glær og útstæð, ókrulluð. Blöðin eru margskiptari en hjá bjarnarkló, allt að 2 m löng og 80 cm breið. Sagtennur blaðrandarinnar eru venjulega snubbóttar (ávalar) og endar smáblaðanna styttri og breiðyddari. Neðra borð blaðsins er venjulega þéttsetið stuttum hárum, en efra borðið er hárlaust. Sveipirnir eru meira eða minna kúptir, 10-15 cm háir og 30-50 cm breiðir. Aldinin eru aflöng, með fjórum, dökkum og jafnbreiðum rákum. Tröllakló er þó afar breytileg í útliti og því getur oft reynst erfitt að aðgreina hana frá bjarnarkló.

Áhrif á vistkerfi og menn

Tilvist risahvannanna bjarnarklóar og tröllaklóar á Íslandi má líta á sem vistfræðilegt vandamál og ógn við heilsu manna. Frá vistfræðilegu sjónarhorni stafar innlendri flóru og tegundafjölbreytni bein ógn af plöntunum. Hæð og umfang þeirra gerir þeim kleift að breiðast yfir innlendan gróður á auðveldan hátt því þær taka til sín allt að 80% sólarljóssins á kostnað annarra lágvaxnari tegunda. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á að þar sem risahvannir hafa náð kjölfestu hefur fjölbreytileika og þéttleika innlendra tegunda hnignað verulega. Þar sem þær vaxa þétt getur hnignun gróðurs orðið það mikil að rof myndast í jarðveginn og eru áhrifin því mikil á vistkerfið. Erlendis hefur orðið vart við aukið rof á árbökkum af völdum risahvanna.

Risahvannir ógna ekki aðeins vistkerfum heldur eru þær líka eitraðar og stafar fólki bein hætta af þeim. Þær innihalda efnasambönd sem nefnast fúranókúmarín (e. furocoumarins) sem finnast í miklu magni í safa þeirra. Komist safinn í snertingu við húð getur myndast alvarlegur bruni en efnasamböndin virkjast þegar þau verða fyrir sólarljósi. Snerting við safann er þannig sársaukalaus í fyrstu en bruninn hefst í fyrsta lagi 15 mínútum eftir snertingu. Flestir eru viðkvæmastir 30 mínútum til tveimur klukkustundum eftir snertingu. Eftir um sólarhring verður vart við roða á húð og síðar mikilli útferð frá sýkta svæðinu. Eftir um þrjá daga koma fram bólgur eða blöðrur á húð. Bruninn veldur yfirleitt varanlegu öri á húðinni og svokölluðu ljósertnisexemi. Sýkta húðsvæðið getur því verið viðkvæmt fyrir sólarljósi árum saman. Svo virðist sem raki í andrúmslofti og sviti geti ýkt upp viðbrögð húðarinnar við brunanum. Safinn úr risahvönnunum er sérstaklega varasamur þegar hann kemst í snertingu við augu fólks en slíkt getur valdið tímabundinni og jafnvel varanlegri blindu. Þrátt fyrir að ýmsar aðrar tegundir sem vaxa í Evrópu innihaldi svipuð efnasambönd þá eru risahvannirnar sérstaklega varasamar vegna mikils styrks efnasambandanna í þeim en einnig vegna stærðar þeirra.

Almenningur er oft ekki meðvitaður um þær hættur sem fylgja risahvönnum. Þeir sem sinna garðyrkjustörfum eru í mestum áhættuhópi því mjög varasamt er að meðhöndla plönturnar án þess að vera í hönskum eða öðrum viðeigandi hlífðarbúnaði. Börnum stafar einnig mikil hætta af plöntunum en svo virðist sem breiður af risahvönnum séu spennandi leiksvæði. Holur stöngull risahvannanna er jafnvel notaður sem baunabyssa eða sjónauki. Þar sem engin erting verður þegar fólk kemst í snertingu við safann, fær viðkomandi enga viðvörun og heldur því áfram við iðju sína eða leik, sem verður oft þess valdandi að áhrifin verða mun verri en ella.

Komist fólk í snertingu við safa, skal húðsvæðið tafarlaust þvegið varlega með sápu og vatni. Mikilvægt er að halda sig frá sólarljósi að loknum þrifum í að minnsta kosti 48 klukkustundir eða lengur. Hafi fólk fengið safa risahvanna yfir stór svæði líkamans eða í augu skal tafarlaust leitað læknis.

Mögulegar aðgerðir

Að losna við risahvannir er langtímaverkefni og er mikilvægt að ráðast af fullum krafti í eyðingu þeirra sem fyrst. Sé beðið of lengi má búast við að vandamálið aukist mikið með tímanum. Bæði bjarnarkló og tröllakló hafa gríðarlega mikla fræframleiðslu en talið er að hver planta geti framleitt allt að 20 þúsund fræ. Ef um er að ræða aðeins eina eða fáar plöntur má klippa þær niður og grafa ræturnar upp. Þó má gera ráð fyrir plantan geri vart við sig í allt að þrjú ár, ef ekki lengur, eftir að rætur hafa verið grafnar upp. Því þarf að fylgjast vel með vaxtarstað plöntunnar í nokkur ár á eftir. Séu plönturnar orðnar fleiri og jafnvel farnar að mynda stórar breiður þarf skipulagt átak til að ráða niðurlögum plöntunnar. Hér þarf þá oftast að notast við blandaða aðferð, klippingu plantnanna, uppgreftri róta og notkun illgresiseyðis, allt eftir umfangi. Gera má ráð fyrir því að beita þurfi þessum aðferðum í þrjú ár eða lengur. Að auki er mjög mikilvægt að þurrka risahvannir og þar með drepa ræturnar áður en þeim er fargað.

Það skal ítrekuð nauðsyn þess að vera ávallt í viðeigandi hlífðarbúnaði þegar risahvannir eru meðhöndlaðar. Vatnsheldir hanskar, andlitshlífar og alklæðnaður er nauðsynlegur.

Þeim sem vilja koma á framfæri upplýsingum um vaxtarstaði risahvanna er bent á netfangið agengartegundir@ni.is, einnig eru frekari ráðleggingar um eyðingu risahvanna fúslega veittar í þessu netfangi.